Fara í efni
Menning

Sýning í tilefni 30 ára afmælis Gilfélagsins

Félagar í Gilfélaginu hafa unnið við að setja upp sýninguna í Deiglunni síðustu daga. Ljósmynd: Skap…
Félagar í Gilfélaginu hafa unnið við að setja upp sýninguna í Deiglunni síðustu daga. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sögusýning í tilefni 30 ára afmælis Gilfélagsins verður opnuð í Deiglunni á morgun, laugardaginn 8. janúar, svo og sölusýning á völdum verkum í eigu félagsins.

Til að fagna 30 ára afmæli Gilfélagsins síðastliðið haust hafa verið haldnir nokkrir viðburðir í Deiglunni, sal Gilfélagsins í Listagilinu á Akureyri. Sýningin sem opnuð verður á morgun er lokaviðburður þessara tímamóta.

„Á sýningunni er gerð grein fyrir tilurð félagsins og sögu. Gilfélagið markaði upphaf menningarstarfs í Grófargili á Akureyri, sem þá hafði gengið undir nafninu Kaupfélagsgil um nokkurra áratuga skeið vegna mikilla umsvifa Kaupfélags Eyfirðinga í gilinu. Á sýningunni má sjá fjölda ljósmynda, prentað efni og veggspjöld frá 30 ára sögu félagsins,“ segir í tilkynningu.

Verk ýmissa listamanna

Auk sögusýningarinnar verður við þetta tækifæri opnuð sölusýning á verkum í eigu Gilfélagsins, flest eru verkin hluti af gjöf íslensks listafólks til félagsins við stofnun þess. Eftirtaldir listamenn eiga verk á sýningunni: Björn Birnir, Einar Hákonarson, Guðjón Ketilsson, Guðmundur Ármann, Helgi Vilberg, Jón Laxdal, Leifur Breiðfjörð, Ragna Hermannsdóttir, Tumi Magnússon, Ursula Gullow, Valgerður Briem og Þóra Sigurðardóttir.

Sýningin verður opnuð klukkan 13.00 á morgun og verður opin til 17.00. Sýningin verður svo opin frá fimmtudegi til sunnudags, til 23. janúar; klukkan 17.00 til 20.00 virka daga og 14.00 til 17.00 um helgar. Framkvæmd sýningarinnar verður að öllu leyti í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur, segir í tilkynningu frá félaginu.

Upphaf Listagilsins 

„Gilfélagið var formlega stofnað af áhugafólki um menningarstarfsemi 30. nóvember 1991. Stofnun Gilfélagsins markaði upphaf að uppbyggingu Listagilsins á Akureyri, þegar félagið tók yfir hluta húsnæðis í Grófargili sem þá hafði lokið hlutverki sínu sem iðnaðarhúsnæði og stóð autt. Með stuðningi Akureyrarbæjar rekur Gilfélagið fjölnotasalinn Deigluna og hefur umsjón með gestavinnustofu. Markmið félagsins er að efla menningar- og listalíf í bænum, auka tengsl almennings við listir og koma á samskiptum norðlenskra listamanna við innlenda og erlenda listamenn,“ segir í tilkynningu Gilfélagsins.

„Í tilefni 30 ára afmælisins hefur félagið staðið fyrir eftirfarandi viðburðum og sýningum síðan á haustmánuðum: Malpokar leyfðir, menningardagskrá Populus Tremula í Deiglunni þann 11. september; þá félagasýning Gilfélaga 14. – 19. október og afmælishátíð félagsins 16. október. Fyrirhugaðir eru fleiri tónlistar viðburðir í tengslum við afmælið þegar samkomur geta verið nokkuð eðlilegar, vegna COVID. Gilfélagið lítur björtum augum til framtíðarinnar og vonast til að vera áfram virkt og mótandi afl í deigu menningarframboðs á svæðinu um ókomin ár.“