Fara í efni
Menning

Sýning á Hlíð: Ólík verk sem kveikja umræðu

Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

Opnun listasýningarinnar Hér og þar II fór fram á Heilsuvernd hjúkrunarheimili, Hlíð, á föstudaginn. Sýningin er í matsalnum á Hlíð, en þar má sjá valin verk úr eigu Listasafnsins eftir Einar Helgason, Lilý Erlu Adamsdóttur, Guðmund Ármann Sigurjónsson og Tryggva Ólafsson. Hlynur Hallsson safnstjóri og annar sýningarstjóranna, Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, tóku til máls við opnunina.

Matsalurinn var þéttsetinn íbúum og starfsfólki Hlíðar og öðrum listunnendum af svæðinu. Guðrún Pálína og hinn sýningarstjóri sýningarinnar, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, voru ánægðar með daginn. „Við lögðum áherslu á að velja verk sem passa vel inn í rýmið og eiga það sameiginlegt að geta kveikt samræður. Hér er eftirsóknarvert að örva minnið og líða vel,“ segir Guðrún Pálína. „Til dæmis má nefna húsin í Innbænum, tréristurnar eftir Guðmund Ármann og vatnslitamyndir af landslagi úr nærumhverfinu eftir Einar Helgason. Hér búa margir sem þekkja eflaust vel til myndefnisins.“ Heiða Björk tekur undir; „Verkin eftir Lilý og Tryggva bjóða svo upp á skemmtilega fjölbreytni,“ bætir hún við.

Þrír af fjórum listamönnum sýningarinnar eru heimafólk; Einar, Guðmundur Ármann og Lilý Erla. „Tryggvi er sá eini sem hefur ekki beina tengingu við Akureyri, en árið 2010 var sett upp yfirlitssýning á verkum hans á Listasafninu á Akureyri,“ segir Guðrún Pálína.

Sýningin mun standa á Hlíð fram yfir áramót og eru áhugasamir hvattir til þess að koma í heimsókn og njóta verkanna í góðum félagsskap eldri borgara bæjarins.