Sýna úr nýju verki; Móðir, kona, meyja

Í tilefni kvennaárs verður sýndur hluti verksins Móðir, kona, meyja, eftir Umskiptinginn Sesselíu Ólafs. Sýningin er opin öllum, enginn aðgangseyrir og fer fram á Amtsbókasafninu á laugardaginn kemur, 18. október kl. 14:00.
Verkið fjallar um þrjár konur sem þekkjast ekki en hittast í bústað til þess að lesa. Þær eru á ólíkum aldri, ein nýlega útskrifuð úr menntaskóla, ein að nálgast fertugt og ein um sextugt. Sú yngsta elskar að dansa, sú fertuga vill helst bara lesa í friði og sú elsta er spennt að kynna hinum ljóð og sögur íslenskra skáldkvenna. Engin þeirra er alls kostar sátt við sínar aðstæður en þær komast smám saman að því að þær geta lært ýmislegt hver af annarri.
Með hlutverk móður, konu og meyju fara Ásta Sighvats Ólafsdóttir, Sesselía Ólafs og Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir. Fanney Valsdóttir er framleiðandi, Hafrún Bylgja Guðmundsdóttir sér um sviðsmynd, leikmuni og búninga en sýningarstjórn er í höndum Herdísar Hermannsdóttur.
Viðburðurinn er samstarf Umskiptinga og Amtsbókasafnsins á Akureyri og hann er styrktur af Sóknaráætlun Norðurlands eystra, Menningarsjóði Akureyrar, Menningarsjóði KEA, Bókasafnasjóði og Verkefnisins læsi á stöðu og baráttu kvenna.
Læsi á stöðu og baráttu kvenna er samstarfsverkefni almenningsbókasafna á Íslandi í tilefni af Kvennaári 2025.