Fara í efni
Menning

Svipan stendur uppi ein er öllu lýkur

Kristján frá Djúpalæk flytur ljóð á menningarhátíð á Akureyri – M-hátíð – árið 1986. Ljósmynd: Skapt…
Kristján frá Djúpalæk flytur ljóð á menningarhátíð á Akureyri – M-hátíð – árið 1986. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kristján Einarsson skáld frá Djúpalæk orti magnaða rímu árið 1959. Hún birtist í Rímnavöku sem Sveinbjörn Beinteinsson reit og safnaði efni í. Kristján sonur skáldsins sé þennan kveðskap í fyrsta skipti fyrir fáeinum dögum.

Kristján yngri er heimspekiprófessor við háskólann í Birmingham á Englandi og gestaprófessor við Háskólann á Akureyri. Hann gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta rímuna.

Kristján segir: „Jón Ingvar Jónsson var svo vinsamlegur að senda mér kveðskap eftir föður minn frá 1959 sem aldrei birtist í neinni ljóðabók hans og ég hafði aldrei séð áður. Þetta er mjög kaldhæðnisleg ríma um mikilvægi svipunnar í mannkynssögunni og á vel við á tímum þegar svipuhöggin ríða á saklausu fólki í Úkraínu og víðar. Eins og segir í einni línunni að neðan: Yfir hrjáðri veröld vorri vofir svipan; hlakkar yfir hug og verki hennar svarta brennimerki.“

SVIPURÍMA

1 Hún er mesta þarfaþing er þreytist bykkjan; sláðu fast, og upp hún yngir ef að færð í götu þyngir.

2 Þetta er gamalt þjóðarráð og þjóðasiður. Ól um hendi ef þú vefur árangurinn skaftið gefur.

3 Þá má hnýta einnig uppá ólarspottann; þriggja hnúta höggið vekur húðarklár sem lýast tekur.

4 Þá er svipan þörf við eðlisþráa krakka; uppeldis í öllum bekkjum eina tækið sem við þekkjum.

5 Húsbændanna hún var löngum höfuðstyrkur; þá gat unnið þrælaskarinn þegar hann var nógu barinn.

6 Hélt ‘ún burt frá húsum manna hungurpakki. Fátæklinga förulýður fyrir henni á knjánum skríður.

7 Loka kjafti skammaskálda skelegg var hún. Slökkti lýðsins lostabruna, lyfti undir menninguna.

8 Hún fékk vanið hunda af að hringa skottið. Hún er og í eigu mannsins undirstaða hjónabandsins.

9 Ég vil skjóta því að þanka þjóðar minnar: silfurbúin svipa að verki sæti vel í skjaldarmerki.

10 Sigurgöngu hefur hún um heiminn farið; hún er kóngur konunganna, klassiskt tákn um eðli manna.

11 Sjaldan æfða böðla brast að beita henni. Hún er valdsins veldissproti, verkstjórinn í hverju koti.

12 Út að lokka leyndarmálin lagin er hún. Bræðir hjörtun, hvell og bitur hennar sinfóniski þytur.

13 Stöðumissir, hungurhótun hrífur víða. Best mun kristna trúin talin tæknilega í starfið valin.

14 Guð hefur löngum gagnað vel ef gilti aga. Andskotinn er allra bestur, einkum stjórni honum prestur.

15 Dauðinn hefur heppnast vel í hlutverkinu. Þúsund draugar þessum líkir þjóna allir vel sem slíkir.

16 Yfir hrjáðri veröld vorri vofir svipan; hlakkar yfir hug og verki hennar svarta brennimerki.

17 En þó séu allir pískar eðlislíkir, útlitsmunur er á svipum einsog fleiri kostagripum.

18 Verndað getur völd og fé sé vel á haldið, gerð í vestri, grunnt þó risti, galdrasvipan, kommúnisti.

19 Eins og fyrri allt er stærst í Ameríku. Drjúgt mun Kains duga skipan dollara og atómsvipan.

20 Svipan stendur uppi ein er öllu lýkur. Svo má ákaft völdin verja að verði enginn til að berja.

Kristján frá Djúpalæk, 1959
_ _ _ _ _

Á vef Héraðsskjalasafnsins á Akureyri er fjallað um Kristján frá Djúpalæk. Þar segir:

Kristján Einarsson var fæddur árið 1916 að Djúpalæk í Skeggjastaðahreppi. Sem barn og unglingur sinnti hann hefðbundnum sveitastörfum. Veturinn 1936 – 1937 stundaði Kristján nám við Eiðaskóla í Eiðaþinghá, þá tvítugur að aldri.

Haustið 1938 fór hann í Menntaskólann á Akureyri og var þar fram til vors að hann hætti skólagöngu. Á Eiðum hafði Kristján kynnst heimasætunni frá Staðartungu í Hörgárdal, Unni Friðbjarnardóttur, sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags.

Unnur og Kristján hófu búskap í Staðartungu árið 1938. Kristján þótti ekki sérstaklega hneigður til búskapar enda brugðu þau hjónin búi árið 1943 og fluttu í Gránufélagsgötu 55 á Akureyri, þar sem þau bjuggu næstu sex árin, en síðan í Byggðaveg 107. Á þeim tíma vann Kristján aðallega verksmiðjuvinnu sem honum leiddist og hann þoldi illa. Hann fékk útrás við ljóðagerð og varð kunnur af henni og gerðist virkur verkalýðssinni.

Í lok árs 1949 fluttu Kristján og Unnur til Hveragerðis sem þá var listamannamiðstöð Íslands. Þar bjuggu þau í húsi sem kallað var Bræðraborg eða Frumskógar 6.

Um þetta leyti var hann orðinn þekktur sem ljóðskáld og dægurlagahöfundur og varð eftir því sem árin liðu æ þekktari. En frægðin dugði ekki til, það vantaði salt í grautinn eins og hjá fleiri listamönnum. Hann þurfti fyrir fjölskyldu að sjá og því tók hann að sér ýmsa vinnu. Hann var barnakennari í Hveragerði og Þorlákshöfn, og vann einnig við garðyrkjustörf, húsamálun og ýmislegt fleira.

Árið 1961 fluttu hjónin ásamt syni sínum til Akureyrar og bjuggu til að byrja með í Hólabraut 20 en frá 1965 í Skarðshlíð 19. Árið 1980 fluttu þau í Arnarsíðu 8a og bjuggu þar þegar Kristján lést árið 1994.

Í nokkur ár var Kristján ritstjóri dagblaðsins Verkamannsins ásamt því að kenna við skóla á Akureyri og sinna ýmsum íhlaupastörfum auk vinnu við ritsmíðar sínar. Nokkur sumur sinnti hann veiðieftirliti með ám í Eyjafirði, Fnjóská, Hörgá og Eyjafjarðará.