Fara í efni
Menning

Sviðslistir af stað á ný: Fullorðin og Tæring

Sviðslistir af stað á ný: Fullorðin og Tæring

Enn er sumar, en nú gefst okkur færi á að fara og njóta leiklistar á ný.

Fullorðin
Það var út af einhverju sem Leikfélag Akureyrar þurfti að slá botn í sýningar á sprenghlægilegum farsakenndum leik á vordögum þar sem Árni Beinteinn, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason fóru á sannkölluðum kostum, fyrst á fjölum Samkomuhússins en síðan í Hofi. Þetta verk höfðu þau sjálf saman sett, en viðfangsefnið það ógurlega álag sem því fylgir að verða fullorðinn og þurfa að takast á við lífið.

Nú verður ýtt úr vör um sinn á ný, ekki margar sýningar auglýstar, en þó komnar á markaðinn fjórar, föstudagana 20. og 27. ágúst og síðan fimmtudaginn 9. og föstudaginn 10. september. Sýningarnar fara fram í HOFI. Ráðlegt er að tryggja sér miða í tíma.

Tæring

Segja má að sama orsök hafi stöðvað sýningar á Tæringu, leikverki um sögu berklasjúkdómsins, sem fram fór á Hælinu, setri um sögu berklanna. Höfundar og leikendur í Fullorðnum koma allir, ásamt fleirum, við sögu í þessari magnþrungnu sýningu, sem er svo áhrifamikil að hún lifir lengi með þeim sem njóta. Nú verður sýnt á Hælinu á ný.

Einungis tíu áhorfendur, eða öllu heldur gestir, komast á hverja sýningu og þeir eru leiddir um hælið þar sem þeir eru sjálfir eins konar persónur eða leikmunir, reyndar nánast eins og þátttakendur í því sem fram fer, fá að fylgjast með vistmönnum í sorg þeirra og gleði á tímum þeirrar plágu sem berklarnir voru. Og áhrifin eru því sterkari sem fólk hefur mátt reyna á sjálfu sér að lifa með þeirri veiru sem hefur nú sett ótrúlegt mark á samtímann.

Tæring er samstarfsverkefni Hælisins og Leikfélags Akureyrar og hefur hlotið styrki frá Leiklistarráði og Sóknaráætlun. Auglýstir eru sex sýningardagar og tvær sýningar hvern dag, klukkan 19.30 og 21.00. Sýningarnar verða 25. og 26. ágúst, 1. og 2. september og 16. og 17. september.

Nánari upplýsingar um báðar sýningarnar eru á mak.is og þar er jafnframt hægt að tryggja sér miða.