Fara í efni
Menning

Sveinbjörg: Aldrei nema vinnukona

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir heima á Rein í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir heima á Rein í Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir sendi á dögunum frá sér heimildaskáldsöguna Aldrei nema vinnukona, sjálfstætt framhald bókarinnar Aldrei nema kona sem kom út fyrir tveimur árum og hlaut afar góðar viðtökur.

  • Útgáfuhóf verður haldið af þessu tilefni í dag, laugardag, klukkan 14 til 16 í verslun Pennans – Eymundsson á Akureyri og þangað eru öll velkomin

Aldrei nema kona er sannsaga, sem sumir kalla svo; skáldsaga sem byggð er á raunverulegu fólki í raunverulegu umhverfi en rithöfundurinn skapar tilfinningar, samtöl og þar fram eftir götunum.

Forvitni um móðurfjölskylduna

Fyrri bókinni, Aldrei nema kona, lauk á dauða Steinunnar Oddsdóttur, sem lést 1869 og Sveinbjörg tekur upp þráðinn tíu árum síðar. Aðalsögupersóna í nýju bókinni er næst yngsta dóttir Steinunnar, Þuríður Guðmundsdóttir.

Grúsk Sveinbjargar á sínum, áður en hún skrifaði Aldrei nema kona, hófst vegna forvitni hennar um móðurfjölskylduna. „Mamma, sem er orðin 96 ára, hafði sagt okkur margt en velti því stundum fyrir sér hve lítið hún vissi um systkini ömmu sinnar. Í ljós kom að fólkið hafði meira og minna farið til Ameríku, Þuríður þessi fór til dæmis með hálfsystur sinni, alnöfnu langömmu minnar,“ segir Sveinbjörg í spjalli við blaðamann, og bætir við í framhjáhlaupi: „Mér fannst það merkilegt að alltaf komu sömu nöfnin upp – langamma mín var Ingibjörg Guðmundsdóttir og það var bókstaflega Ingibjörg á hverjum bæ og margar Guðmundsdætur! Guðrún og Sigríður komu mikið við sögu í fyrri bókinni.“

Sveinbjörgu tókst að finna Þuríði í kirkjubókum, komst þannig að því á hvaða bæjum hún hafði verið vinnukona, hjá hvaða fólki og að einhverju leyti hvernig lífið var. „Ég skoðaði ýmsar heimildir, fór í öll blöð og tímarit sem komu út á þessum tíma, þau voru reyndar ekki mörg en þar voru nákvæmar veðurlýsingar, ég gat séð hvernig aldafarið var, heilsufar fólks og stjórnarhættir.“

Sveinbjörg komst að því að Þuríður hafði farið vestur um haf 1886, 36 ára, eftir að hafa verið vinnukona í 16 ár.

Hremmingar vinnukvenna

Anna móðir Sveinbjargar er ættuð úr Skagafirði og sögusviðið er Lýtingsstaðahreppur. „Þuríður hefur starfsferil sem vinnukona á Stóra Vatnsskarði í Skagafirði, á heiðinni á leið vestur, og fer svo á milli bæja. Hún er heppin þessi vinnukona því hún er ekki alveg á botninum, kemst í góðar vistir en sér, þegar hún eldist, hvað verður um vinnukonur sem smám saman eiga enga að og enda sem niðursetningar við skelfilegar aðstæður.“ Það er ein ástæða þess, segir Sveinbjörg, að Þuríður fer vestur um haf.

„Það sem líka vakti fyrir mér var að kynna mér allar þessar konur, ég sé að þær flæktust frá bæ til bæjar og margar lentu í þeim hremmingum að skilja eftir barn á þeim bæ þar sem þær voru síðast; þær voru reknar burtu og barninu komið fyrir sem niðursetningi á einhverjum bæ. Þannig var slóðin á eftir sumum, mín kona lenti ekki í þessu en varð áhorfandi að ýmsu.“

Sveinbjörg leitaði að ættingjum fyrir vestan sem gætu vitað eitthvað og á Íslendingadeginum í Kanada rakst hún á konu sem reyndist afkomandi langömmusystur hennar. „Hún vissi þó ekkert um Þuríði en ég fór á netið og fann á Facebook mann sem gæti hugsanlega verið af þessari ætt; Benjaminsson var ættarnafnið í Ameríku. Hann var á mínum aldri og sagðist muna eftir að hafa verið sagt frá Þuríði.“

Þuríður var vinnukona hjá frænda sínum fyrir vestan og dó á fjórða áratugnum. Maðurinn, sem Sveinbjörg komst í samband við, hafði fundið legstein Þuríðar þannig að mynd af honum er til.

Umræddur maður mundi eftir því, að sögn Sveinbjargar, að þessi kona – Þuríður – „hafði aldrei talað annað en íslensku, sem var ekki óalgengt í þessum íslensku samfélögum.“

Frá Sauðárkróki til Quebec

„Sagan hefst í flæðarmálinu á Sauðárkróki og endar þegar Þuríður stígur á land í Quebec í Kanada. Hún er sögð á tveimur tímasviðum, gerist öðrum þræði þegar fólkið er á ferðinni vestur en inn á milli eru minningarbrot Þuríður þar sem hún rifjar upp þessi 16 ár í vinnumennsku.“

Þannig að næsta bók gerist í Kanada, eða hvað? Ertu farin að grúska meira?

„Nei, nei! Ég verð 75 ára í næsta mánuði, en segi eins og mamma sagði alltaf: Ef guð lofar!“

Sveinbjörg segist vissulega ætla að halda áfram að grufla „en svo er spurning hvað verður úr því. Ég ætla ekki að setja neinn þrýsting á sjálfa mig.“

Aldrei nema kona var fyrsta bók Sveinbjargar. Hún var kennari í áratugi en „gerðist rithöfundur á gamals aldri! Ég hafði bara skrifað greinar og þýtt bækur en aldrei staðið í svona útgáfu fyrr. En jú, það er bæði gaman og stressandi! Ég vissi ekki hvernig fyrri bókinni yrði tekið en hún fékk mjög góðar viðtökur og það var hvatning til að halda áfram.“