Fara í efni
Menning

Svarfdælsk innrás á tónleikum Hymnodiu

Hátíðartónleikar Hymnodiu í fyrra, 2024.

Annað kvöld, mánudagskvöldið 22. desember, býður Hymnodia til sinna árlegu hátíðartónleika í Akureyrarkirkju. Hefð hefur skapast fyrir því að hafa tónleikana á 22. desember, og nú er 17. árið sem þeir eru haldnir, utan við eitt ár sem datt út vegna Covid. „Tónleikunum er ætlað að vera einhverskonar mótvægi við erilinn sem gjarnan einkennir dedembermánuð hjá fólki,“ segir Elvý Hreinsdóttir, kórfélagi í Hymnodiu, við blaðamann Akureyri.net.

Við erum svolítið eins og ein stór fjölskylda og þetta er okkar sameiginlegi jólaundirbúningur

„Við reynum að skapa stemmningu þar sem fólk getur látið líða úr sér þreytu og stress. Tónlistin er í rólegri kantinum og slökkt er á hefðbundinni lýsingu í kirkjunni en við notumst við mjög daufa jólalega lýsingu. Efnisskráin er kyrrlát en fjölbreytt, við reynum alltaf að vera skapandi í flutningnum og finnum okkar leiðir til að glæða þekkta tónlist nýju lífi með t.d. nýjum og jafnvel framandi útsetningum og spuna. Hluti af efniskránni er alltaf eitthvað sem við höfum ekki sungið á jólatónleikum áður.“

 

T.v. Eyþór Ingi er eftir sem áður kórstjóri og undirleikari Hymnodiu. T.h. Þórður, kollegi Eyþórs úr Dalvíkurbyggð, tekur þátt í tónleikunum í ár.

Spunameistarinn Þórður leggur lið

Kórinn hefur fengið til sín tónlistarmenn úr ólíkum áttum í gegnum tíðina, til þess að skapa ólíka stemningu milli ára, og nú verður það hann Þórður Sigurðarson organisti í Dalvíkurbyggð sem verður með. „Þórður mun hoppa á milli ýmissa hljóðfæra svo það verður svo sannarlega engin einhæfni þegar kemur að undirleik og hljóðfæraspuna,“ segir Elvý. „Við erum afar ánægð að fá Þórð með okkur og höfum grínast með að það sé svarfdælsk innrás í kórinn þar sem við erum þá orðin fjögur sem komum þaðan í ár og mögulega mun okkur fjölga á næstunni enda dalurinn þekktur fyrir mikla og góða tónlistarmenningu.“

„Fyrir okkur Hymnodiufélaga eru þessir tónleikar löngu orðin mikilvæg jólahefð. Við erum svolítið eins og ein stór fjölskylda og þetta er okkar sameiginlegi jólaundirbúningur. Við vonumst til þess að tónleikagestir upplifi með okkur þann fallega jólaanda sem við höfum verið að skapa saman,“ segir Elvý að lokum. Miðar á tónleikana fást á Tix.is og við dyrnar.