Fara í efni
Menning

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju

Petrea Óskarsdóttir, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Helena Guðlaug Bjarnadóttir. Ljósmynd: Þórarinn…
Petrea Óskarsdóttir, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Helena Guðlaug Bjarnadóttir. Ljósmynd: Þórarinn Stefánsson.

Einn af föstum liðum í menningarlífi Akureyrar eru Sumartónleikar í Akureyrarkirkju. Þeir hafa verið haldnir síðdegis á sunnudögum í júlímánuði allt frá því 1987, eða í nærfellt hálfan fjórða áratug. Sumartónleikarnir eru fastur liður í Listasumri á Akureyri. Aðgangur er ókeypis, en tekið við frjálsum framlögum.

Nú ber svo við að Sumartónleikar verða fleiri en áður, fimm í stað fernra. Fyrstu tónleikarnir verða sunnudaginn 27. júní og síðan alla sunnudaga í júlí og má með sanni segja að tónleikaskráin spanni ákaflega vítt svið tónlistarinnar.

Á fyrstu tónleikunum 27. júní klukkan 17:00 munu Helena Guðlaug Bjarnadóttir, Petrea Óskarsdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir flytja tónlist fyrir sópran, flautu og orgel frá ýmsum tímum eftir konur og karla. Má þar nefna sónötu eftir Telemann, aríur eftir Georg Friederich Händel og ný verk eftir Arngerði Maríu Árnadóttur og Emmu Lou Diemer. Þetta er spennandi dagskrá með ferkum frá Barokk og til okkar daga.

Á öðrum tónleikunum, þann 4. júlí klukkan 17:00 kveður við allt annan tón þegar Jónína Björt Gunnarsdóttir, Ívar Helgason söngvarar og Valmar Väljaots, sem leikur með þeim, flytja tónlist úr teiknimyndum, leikritum, ævintýrum o.fl. Það má með sanni segja að þetta verði glæsilegir fjölskyldutónleikar og kjörið tækifæri fyrir börn og fullorðna að njóta þeirrar skemmtunar í kirkjunni á sunnudagssíðdegi.

11. júlí stígur á svið tríóið Gadus Morhua, 18. júlí leikur Stengjakvartettinn Spúttnik og Olga Vocal Ensemble endar svo tónleikaröðina í ár, þann 25. júlí. Nánar verður gerð grein fyrir þessum atriðum síðar.

Það er sannarlega fjölbreytt dagskrá og eftirsóknarvert að njóta sunnudagseftirmiðdaganna í Akureyrarkirkju síðasta sunnudaginn í júní og alla sunnudaga að í júlí kl 17:00.

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju eru styrktir af Akureyrarbæ, Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Listasumri og Héraðssjóði.