Fara í efni
Menning

Sumargjöf Stefáns Þórs; ný ókeypis ljóðabók

Stefán Þór þegar hann gaf út skáldsöguna Þrítugur 1/3 í febrúar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Í dag kemur út ljóðabók, Ljóðin okkar Sillu, eftir Stefán Þór Sæmundsson. Verkið er hvort tveggja vefbók og hljóðbók, sem Stefán segir sumargjöf frá sér, því hægt er að sækja bókina frítt af vefnum og hlusta á Stefán lesa.

Stefán segir mörg ljóðanna í bókinni kennd við skáldsagnapersónuna Sigurlaugu Svanbjörnsdóttur, Sillu Svan. „Þessi persóna varð til í skáldsögu minni Þrítugur 1/3 sem kom út í lok febrúar 2021 og fæst hjá höfundi og í Pennanum. Þetta er fyrsta bindið í þríleik um hóp sem kynnist á menntaskólaárunum og við fylgjumst með þeim í þrjá áratugi eða svo. Í fyrsta bindinu hef ég lagt nokkur ljóð Sillu Svan í munn og geri það áfram hér – þetta eru þau ljóð mín sem hafa hvað mesta kvenlega eða femíníska sýn og sjónarhorn. Einhver þeirra birtust í Þrítugur 1/3 og hugsanlega munu einhver ljóðanna rúmast í framhaldsbókunum – hvað veit ég?“ segir Stefán á vefsíðunni þar sem bókina er að finna.

Ljóðabækur Stefáns frá síðustu árum eru Upprisa (2019) og Mar (2020). Á vefsíðunni segir Stefán frá því þegar „ljóðæðin opnaðist“ veturinn 2018 - 2019 og frá nýju bókinni.

Smelltu hér til að lesa hlaða bókinni niður og hlusta á höfundinn lesa.