Fara í efni
Menning

Styðja við menningu barna næstu þrjú ár

Samningur í höfn. Frá vinstri: María Pálsdóttir verkefnstjóri Fiðrings, Lára Halldóra Eiríksdóttir formaður stjórnar SSNE, Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar og Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélagsins og verkefnastjóri Upptaktsins.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) gerðu í dag samning við Menningarfélag Akureyrar um tvö verkefni, Upptakt og Fiðring. Um er að ræða áhersluverkefni Sóknaráætlunar sem stjórn SSNE hefur valið að styrkja til þriggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Bæði þessi verkefni styðja vel við barnamenningu sem er ein af áherslum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, auk þess að vera áhersla menningar- og viðskiptaráðherra sem stutt hefur dyggilega við sóknaráætlanir landshlutanna um árabil.

  • Fiðringur er hæfileikakeppni ungmenna á Norðurlandi eystra sem hefur það að markmiði að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Með Fiðringi er skapaður vettvangur fyrir ungmenni af öllu svæðinu til að halda uppskeruhátíð og flytja verk sín á sviði með öllum leikhústöfrunum.
  • Upptaktur, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á Norðurlandi eystra stuðlar að tónsköpun ungs fólks og hvetur þau til frumsköpunar. Ungmennin fá aðstoð við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðjum með atvinnu tónlistarfólki og upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnuhljóðfæraleikara. Þátttakendur eignast svo hágæða upptökur af eigin tónsmíðum í flutningi fagfólks.

„Það skiptir bæði þessi verkefni afar miklu máli að hafa vissu fyrir því að fjármögnun til þriggja ára liggi fyrir og mun vonandi gera þeim kleift að blómstra enn frekar og skapa sér vettvang til framtíðar,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar og verkefnastjóri Upptaktsins og tekur María Pálsdóttir verkefnastjóri Fiðrings heilshugar undir þau orð. „Að auki verður upplifun ungmennanna betri þar sem fókusinn mun geta farið frá því að hafa áhyggjur af fjármögnun hvers árs í að vinna enn meira með verkefnin sjálf. Með þessum samningi verður barnamenningu í landshlutanum gert enn hærra undir höfði og því fögnum við gríðarlega.“

Sóknaráætlanir landshlutanna eru fjármagnaðar af menningar- og viðskiptaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu. Áhugasamir geta kynnt sér Sóknaráætlun Norðurlands eystra og verkefni hennar á heimasíðu SSNE.