Fara í efni
Menning

Strengjaferð um Evrópu í Akureyrarkirkju

Strengjakvartettinn Spúttnik heldur tónleika sunnudaginn 18. júlí í Akureyrarkirkju og flytur þar dagskrá sem nefnist Strengjaferð um Evrópu. Þetta eru fjórðu tónleikar Sumartónleika í Akureryarkirkju þetta árið og hefjast að vanda klukkan 17.00 á sunnudagssíðdegi.

Í Strengjakvartettinum Spúttnik eru Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir og Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikarar, Vigdís Másdóttir víóluleikari og Gréta Rún Snorradóttir sellóleikari, en í Strengjaferðinni flytja þær tónlist eftir Ludwig van Beethoven, Franz Schubert, Jean Francaix, Jóhann Jóhannsson o.fl. Verkin eru í tímaröð, allt frá 18. öld fram á þá 21. Ferðin hefst á Ítalíu og þokast sífellt norðar uns endað verður á Íslandi.

Strengjakvartettinn Spúttnik var stofnaður árið 2018. Kvartettinn hefur komið fram við ýmis tækifæri frá stofnun, en þess er skammt að minnast að 7. mars 2021 lék kvartettinn dagskrána Dauðinn, stúlkurnar og strandið í Hofi á Akureyri.

Spúttnik hefur verið í nánu samstarfi við fiðlusmiðinn Jón Marinó Jónsson og leikið við ýmis tækifæri á hljóðfæri hans, sum í eigu hljóðfæraleikaranna sjálfra eða fengin að láni.

Frekari upplýsingar um kvartettinn eru hér 

Aðgangur að Sumartónleikum í Akureyrarkirkju er ókeypis, en tekið við frjálsum framlögum. Tónleikarnir eru styrktir af Akureyrarbæ, Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Tónlistarsjóði, Héraðssjóði, Greifanum og Listasumri.