Fara í efni
Menning

Strákarnir í Skálmöld í Hofi og halda svo til hafs

Ljósmynd: Íris Dögg Einarsdóttir

Þungarokkssveitin Skálmöld heldur tvenna útgáfutónleika til þess að fagna sjöttu breiðskífu sinni, annað kvöld í Háskólabíói í Reykjavik og á laugardagskvöldið í Hofi á Akureyri.

Líkt og fyrri verk sveitarinnar er platan samhangandi saga sem rakin verður frá upphafi til enda, textunum varpað upp á tjald ásamt myndum og ekkert til sparað, að því er segir í tilkynningu.

„Ýdalir segir söguna af norræna guðinum Ulli og átökum hans við orminn Níðhögg. Þá spila örlaganornirnar, Urður, Verðandi og Skuld, stórt hlutverk ásamt fleiri vættum. Eftir hlé flytur sveitin úrval eldri verka.“

Ekki í Ýdölum!

„Skálmöld nýtur sín hvergi betur en við þessar aðstæður þar sem vítt er til veggja og saman fara hljóð og mynd. Í kjölfarið halda strákarnir svo í Evróputúr til þess að fylgja plötunni eftir.

Selt verður í sæti og tónleikarnir henta öllum aldri. Yngri áhorfendur og viðkvæmari skyldu muna eftir heyrnarhlífum.“

Tekið er fram, „til þess að fyrirbyggja allan misskilning“ að tónleikarnir fara fram í Háskólabíói í Reykjavík og Hofi á Akureyri, „ekki í hinu ástsæla félagsheimili Ýdölum í Aðaldal. Þar er vissulega gott að vera — en við geymum það þar til síðar.“

Þungarokkarar á skemmtiferðaskipi

„Strákarnir í Skálmöld hafa verið iðnir við að spila erlendis og nú í sumar spiluðu þeir m.a. á tveimur af stærstu þungarokkshátíðum heims. Á Wacken léku þeir ásamt Iron Maiden, Megadeth ofl ofl, og þar mætti svo sjálfur forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson til að sjá Skálmöld á erlendri grund. https://www.visir.is/g/20232447458d/for-setinn-let-thad-vera-ad-slamma-og-fara-i-pyttinn

Eftir þessa útgáfutónleika í Háskólabíói og Hofi fer hljómsveitin í skipasiglingar en þungarokkarar hafa tekið yfir eitt stykki skemmtiferðaskip og mun Skálmöld tvenna tónleika á skipinu. https://www.full-metal-cruise.com/en/

Í október fer hljómsveitin svo í tónleikaferðalag um Evrópu að kynna nýju plötuna; Ýdali.

Til gamans má geta að hrossabóndinn Baldvin Kr. Baldvinsson frá Torfunesi, syngur með Skálmöld á nýju plötunni, í laginu Níðhöggur en sonur Baldvins, Þráinn Árni leikur á gítar í Skálmöld.“