Fara í efni
Menning

Stórtónleikar: Sálumessa Duruflé í Akureyrarkirkju

Stórtónleikar: Sálumessa Duruflé í Akureyrarkirkju

Við höfum notið þess hér á norðurslóðunum að tveir af fremstu kammerkórum landsins eru hér, annars vegar Kammerkór Norðurlands með söngfólki víða af Norðurlandi og hins vegar Hymnodia, sem að langmestu leyti er skipuð söngfólki á Akureyri. Og nú fáum við að njóta þess að þessir tveir máttarstólpar stilli saman strengi sína og komi fram á tónleikum í Akureyrarkirkju sunnudaginn 7. nóvember, þá undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, sem jafnan stýrir Kammerkór Norðurlands, en Eyþór Ingi Jónsson kórstjóri Hymnodiu mun leika á orgel, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir leikur á selló og Hildigunnur Einarsdóttir messósópran er einsöngvari.

Á efnisskránni er afar mögnuð sálumessa, Requiem, eftir Maurice Duruflé, en áður en að henni kemur verða flutt þrjú mögnuð kórverk sem gera miklar kröfur til söngfólksins. Fyrst skal nefna O Sacrum Convivium, sem er eitt fárra kórverka sem franska 20. aldar tónskáldið Olivier Messiaen lét frá sér fara. Í öðru lagi er kröftugt verk ögn yngra tónskálds, O Magnum Mysterium eftir Morten Lauridsen, sem er Bandaríkjamaður þótt nafnið tengi hann frekar við Danmörku. Í þriðja lagi er svo hið kynngimagnaða Requiem sem Jón Leifs samdi í minningu dóttur sinnar, sem féll frá á ungum aldri.

Maurice Duruflé (1902-1986) fæddist í Louvien í Norður-Frakklandi en var settur til náms í píanó- og orgelleik í Rouen tíu ára gamall. Sautján ára hóf hann nám í París og átján ára var hann tekinn inn í Conservatoire de Paris og þótti framúrskarandi tónlistarmaður. Tuttugu og fimm ára varð hann fastamaður í Notre Dame dómkirkjunni og starfaði þar lengi við hlið Louis Vierne. Snemma hóf hann að semja tónlist og samdi heil ósköp, að sagt er, en varð með tímanum afar gagnrýninn á eigin verk og fargaði þeim ófáum. Eitt megineinkenni verkanna sem fengu að standa er að þau gera afar miklar kröfur til flytjendanna, og það fáum við á sjá og heyra á tónleikunum þegar sálumessan hans hljómar.

Að sögn Péturs Halldórssonar talsmanns Hymnodiu er Sálumessa Duruflés einstök meðal slíkra verka, byggð að hluta á gregorskum stefjum hinnar öldnu frönsku kirkju samanslungnum við nútímalegri hugmyndir og stefnur í tónlist. Úr þessu sé ofinn dásamlegur vefur hljóma og stefja. Þetta sé eitt meginverk tónskáldsins og unnið á löngum tíma, hafi upphaflega átt að verða sinfónískt verk, sálumessa, sem Dudurflé hafi síðar fléttað saman við orgelsvítu með gregorsöng. Það er pólitísk saga að baki verkinu sem tengist seinni heimsstyrjöldinni, þegar Duruflé átti árið 1941 að semja tónverk að kröfu Vichy-stjórnarinnar, en verkinu var ekki lokið fyrr en að stríði loknu, reyndar ekki fullnað fyrr en í september 1947 og frumflutt í nóvember það ár. Þarna eru stríðsógn og ógurleg átök lífs og dauða, þar sem lífið hefur vinninginn, svo það sé sagt í sem stystu máli.

Requiem opus 9 eftir Duruflé er krefjandi verk fyrir alla sem taka þátt í flutningi þess og Eyþór Ingi Jónsson organisti sagði að orgelhlutinn í verkinu væri gríðarlega erfiður og hann hefði um hríð fátt gert annað en að æfa sig frá því snemma morguns fram á rauða nótt, þetta væri verulega erfitt en óskaplega skemmtilegt verkefni.

Tónleikarnir eru sem fyrr segir í Akureyrarkirkju sunnudaginn 7. nóvember og hefjast klukkan 16.00.

Miðasala er á tix.is