Fara í efni
Menning

Stöðutaka á „Einkasafni“ Aðalsteins í Deiglunni

Myndlistarsýning Aðalsteins Þórssonar – Stöðutaka – verður opnuð í Deiglunni í Listagilinu föstudaginn 13. október kl. 20.00.

Aðalsteinn hefur búið til alltumlykjandi innsetningu í salnum sem saman stendur af ljósmyndum, myndbandsverkum, ljósskúlptúr og fjölmörgum safnmunum úr Einkasafninu, að því er segir í tilkynningu.

Einkasafnið er umhverfisverk sem Aðalsteinn starfrækir í Eyjafjarðarsveit, 10 km. sunnan Akureyrar. Það er „vaxandi safn sem hýsir það sem verður eftir af eigin neyslu, því sem er hent,“ segir hann. „Með þessu er reynt að gefa eins heillega mynd af fyrirferð einstaklingsins í umhverfinu og hægt er. Leitast er við að Einkasafnið sé sjálfbær eining hvað varðar orkuöflun og meðferð úrgangs. Með það að markmiði að vera í jafnvægi við náttúru og umhverfi. Safnið hefur verið í núverandi húsnæði frá 2018.“

Menningarverðmæti

„Í verkefni mínu Einkasafninu geng ég út frá því að afgangar neyslu minnar séu menningarverðmæti, á svipaðan hátt og litið er á hafðbundna sköpun, afganga hugans sem menningarverðmæti. Ég leitast við að halda til haga öllu því sem af gengur af minni daglegu neyslu“. Þetta segir Aðalsteinn vera megin inntak Einkasafnsins, verkefnis sem hann hefur unnið að síðan um aldamótin síðustu. Í því verkefni vill hann gera sýnilega stærð einstaklingsins í umhverfinu, efla umhverfisvitund og vinna að sjálfbærni. Samtímis því að skapa nýja fegurðarupplifun þar sem samtvinnast náttúrulifun og menningar upplifun.

Sýningin er opin um þessa helgi, bæði laugardag og sunnudag, frá kl. 14 til 17, og um næstu helgi, frá föstudegi 20. til sunnudags 22. október, einnig kl. 14 til 17.
_ _ _

  • Aðalsteinn Þórsson fæddist 1964 á Kristnesi í Eyjafirði. 1989 hóf hann nám í Myndlistaskólanum á Akureyri. Hann lauk MFA námi frá Dutch Artinstitute, ArtEz árið 1998, þá Aki2 í borginni Enchede í Hollandi, og hefur verið starfandi myndlistamaður síðan þá. Aðalsteinn hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2016, haldið fjölda einkasýninga, tekið þátt í samsýningum og viðburðum auk þess að starfa að félagsmálum á menningarsviðinu.