Fara í efni
Menning

Stíf dagskrá Jóhönnu Guðrúnar á laugardag

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir hafði í nógu að snúast á laugardagskvöldið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir hafði í nógu að snúast á laugardaginn, við söng og leik á fjölum akureyrskra menningarhúsa.

Jóhanna Guðrún leikur og syngur um þessar mundir í Chicago, geysivinsælum söngleik sem Leikfélag Akureyrar sýnir í Samkomuhúsinu. Þar steig þessi magnaði listamaður á svið að vanda klukkan 20.00 og fór með hlutverk glæpakvendisins Velmu.

Fyrr um kvöldið hafði hún sungið nokkur lög á ABBA tónleikasýningu sem hófst klukkan 18.00 í menningarhúsinu Hofi, þar sem einnig komu fram Selma Björnsdóttir, Stefanía Svavarsdóttir og Hansa, Jóhanna Vigdís Arnardóttir ásamt hljómsveit.

Í Hofi flutti Jóhanna Guðrún nokkur lög fyrir hlé áður en hún dreif sig inn í Samkomuhús. Um leið og sýningunni á Chicago lauk flýtti hún sér svo aftur út í Hof þar sem stóð yfir seinni ABBA sýning kvöldsins. Söngkonunni var vel fagnað þegar hún steig á svið; sú sem þið hafið öll verið að bíða eftir, eins og Selma tilkynnti fyrir hlé þegar hún upplýsti hvers kyns var. Til þess að allt gengi upp var röð ABBA laganna önnur á seinni sýningunni; þá söng Jóhanna bara eftir hlé við  afar góðar undirtektir.