Fara í efni
Menning

Stefán Boulter: Eilífð í augnabliki í Hofi

Myndlistarmaðurinn Stefán Boulter opnar sýninguna sína Eilífð í augnabliki í Menningarhúsinu Hofi á morgun, laugardaginn 3. febrúar, kl. 16. 

Í tilkynningu um sýninguna segir að Stefán hafi kosið sér að kalla það sem hann gerir „ljóðrænt raunsæi“. Stefán býr til táknmyndir sem eru frásagnarlegs eðlis, bæði persónulegar og byggðar á þekktum og fornum grunni. Hugleiðingar um náttúruna, tilvist okkar í henni og dýrkun hennar skipar þar stóran sess, með áherslu á dýrin og viðveruhluta og áru þeirra. Málverkin endurspegla andleg og fagurfræðileg gildi listsköpunar sem eru sígild og tímalaus. Stefán hefur verið talsmaður nýrra og breyttra heimspekilegra viðhorfa í listsköpun og bera verk hans þess merki, segir í tilkynningunni. 

Stefán hefur sýnt verk sín víða í söfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis. Málverkin á sýningunni eru öll unnin með olíu á striga. Bæjarbúar eru boðnir velkomnir á opnun sýningarinnar.