Fara í efni
Menning

Spilar Orgelbüchlein eftir J.S. Bach í heild

Svíinn Hans-Ola Ericsson spilar alla Orgelbüchlein (Litlu orgelbókina) eftir Johann Sebastian Bach á tónleikum í Akureyrarkirkju næsta þriðjudag, 20. september, klukkan 20.00. Hann er einn virtasti orgelleikari samtímans, að því er fram kemur í tilkynningu. Tónleikarnir eru hluti Orgelhátíðar Akureyrarkirkju.

J.S. Bach samdi Orgelbüchlein sennilega fyrir son sinn, Wilhelm Friedemann. Bókin átti að innihalda 164 kóralforspil en Bach kláraði aðeins 46. Bókin er einskonar kennslubók í spuna, orgelleik og tónsmíðum fyrir orgel og eru verkin því afar fjölbreytt.

„Sálmforleikirnir eru flestir stuttir og tekur u.þ.b. 80-90 mínútur að flytja þá alla. Orgelbüchlein er af flestum spekingum talin magnaðasta safn orgeltónsmíða sem til er,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.

„Hans-Ola Ericsson er ekki aðeins einn magnaðasti orgelleikari samtímans, hann er einnig mjög virtur kennari, tónskáld, fyrirlesari, ráðgjafi og myndlistarmaður. Hann ferðast á milli bestu orgela heimsins til að halda tónleika og kenna.“

Ericsson mun einnig halda masterclass fyrir íslenska organista um Orgelbüchlein.

Aðgangseyrir á tónleikana er 2.500 krónur. 

Organisti, kennari, tónskáld

Hans-Ola Ericsson er fæddur í Stokkhólmi árið 1958. „Hann er afar þekktur organisti með hundruð tónleika að baki, auk þess sem hann er virtur kennari og afar gott tónskáld Ericsson er þekktur fyrir túlkun sína og útgáfu á tónlist og Olivier Messiaen og John Cage. Plötuútgáfa hans á öllum verkum Messien þykir tímamóta útgáfa. Einnig fjölmargar plötur með verkum J.S. Bach, bæði orgelverkum og kammerverkum,“ segir í kynningu.

„Í mörg ár laðaði Hans-Ola Ericsson nemendur að konsertorganistadeild Tónlistarháskólans í Piteå í Svíþjóð. Hann var skipaður prófessor árið 1989 og efnilegir nemendur frá öllum heimshornum sóttu í að nema orgelleik hjá Ericsson. Árið 2011 flutti hann til Montreal og starfaði sem yfirmaður kirkjutónlistar og orgeldeildar við hinn virta McGill háskóla. Ericsson hefur flutt aftur heim til Svíþjóðar og starfar nú mest við tónleikahald víða um heim.“

_ _ _

Mörg afmæli

  • Orgel Akureyrarkirkju er næst stærsta pípuorgel landsins. Það er byggt árið 1995, á grunni gamla orgels kirkjunnar, sem var frá árinu 1960.
  • Árið 2020 stóð til að fagna 80 ára afmæli Akureyrarkirkju, 75 ára afmæli Kórs Akureyrarkirkju, 60 ára afmæli upprunalega orgelsins og 25 ára afmæli „nýja“ orgelsins. Vegna heimsfaraldurs urðu hátíðahöldin ekki eins umfangsmikil og til stóð.
  • Því var ákveðið að blása til orgelhátíðar í lok faraldurs. Henni lýkur í afmælismessu Akureyrarkirkju, 20. nóvember. Tónlistarsjóður, Sóknarnefnd Akureyrarkirkju og Héraðssjóoður Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis styrkja Orgelhátíð í Akureyrarkirkju.