Sögur Grétu Berg í myndlist á Amtinu

Gréta Berg Bergsveinsdóttir listakona býður til opnunar á myndlistasýningu sinni á Amtsbókasafninu á morgun, laugardaginn 3. maí kl. 12.00. Sýningin ber heitið 'Saga', og samanstendur af pennateikningum og málverki, en Gréta segir myndrænar sögur af sinni einstöku skynjun á náttúrunni og tilvistinni. Gréta er 76 ára og er nýlega flutt aftur heim til Akureyrar, en ræturnar hafa ávallt verið hér þó að hún hafi búið fyrir sunnan síðan 1997. Blaðamaður kíkti í kaffi til hennar í Elísabetarhaga, til þess að heyra um sýninguna og listina.
„Þegar maður kemur inn um dyrnar á Amtsbókasafninu er eina olíumálverk sýningarinnar beint af augum,“ segir Gréta um sýninguna. „Þar málaði ég píramídana. Tígullinn sem er tveir píramídar, einn sem snýr upp og einn sem snýr niður og tákn frumefnanna. Andlegi heimurinn og efnisheimurinn mætast í miðjunni. Túlkun mína á náttúrunni tengi ég mikið við móður mína, sem var sjáandinn Margrét J. Thorlacius frá Öxnafelli. Hún var lækningamiðill og frumkvöðull í því að tengja okkur mennina við náttúruvætti og ég ólst upp við hennar sýn. Álfa, huldufólk, árur og fyrri líf, sem dæmi. Allt lifandi. Ég er ekki sjáandi sjálf, en ég sé með hjartanu og tilfinningunum.“
Gréta við eina af teikningum sínum á Amtsbókasafninu. Því meira sem áhorfandinn virðir fyrir sér myndina, kemst hann dýpra í söguna á bak við hana. Mynd: RH
Leiðbeindi í Hveragerði með listmeðferð
Teikningar Grétu á sýningunni eru byggðar á upplifun hennar, þar sem náttúran mætir heilun og hjúkrun í lífi mannanna. Gréta er menntuð sem hjúkrunarfræðingur og vann í fimmtíu ár við hjúkrun. Hún þróaði svo sína eigin listmeðferð og starfaði lengi við heilsustofnunina í Hveragerði þar sem hún leiðbeindi skjólstæðingum að tengjast sköpunarkrafti sínum í heilunartilgangi. „Það var mjög gefandi að þróa mína eigin listmeðferð eftir ýmis námskeið og eigin reynslu. Það snýst um að nota myndlist til þess að segja innri sögur og finna vitundinni farveg í tengslum við visku lífsins og náttúrunnar. Hugsun er litir og líðan er litir,“ segir Gréta.
Fyrirgefningin er svo máttug. Að losa úr þungum áfallapoka og fyrirgefa sér og öðrum
„Ég hef alltaf teiknað mikið og málað draumana mína,“ segir Gréta, en listsköpun hefur verið órjúfanlegur hluti af henni alla tíð. Hún hefur sýnt víðsvegar um landið allt frá 1969 og til dagsins í dag„. Ég á létt með að gera ljóð við myndirnar mínar, en við hverja teikningu á sýningunni er stutt frásögn í ljóðrænum texta, sem gefur myndunum meiri dýpt. Þetta eru mikið skyssur sem ég hef unnið með samhliða hjúkrun og vangaveltum um líðan fólks og tilgang lífsins.“
Hverri mynd fylgir ljóðrænn texti frá Grétu. Mynd: RH
Konan og móðirin alltaf nálægar
„Konan og vinna okkar er mér mjög hugleikin í allri minni sköpun,“ segir Gréta. „Hvað við höfum lítið sést, en þó verið sýnilegar. Að vera mæður. Að ala upp börnin sín og mæta þar sínu eigin uppeldi. Sjá næstu kynslóð ala upp sín börn og finna til sektarkenndar, að maður hefði getað gert betur, eða eitthvað slíkt. Að fyrirgefa sér það. Að skilja að maður vissi ekki betur.“ Gréta segir að hún hafi alltaf þráð að flytja aftur heim til Akureyrar, og sé hamingjusöm að vera komin aftur eftir þrjátíu ár fyrir sunnan.
„Ég er búin að vera að hvíla taugarnar mínar, síðan ég kom,“ segir Gréta. „Eftir að pakka saman heimili okkar fyrir sunnan og vinna mikið. Ég hef verið að vernda sjálfa mig, en það er mikil næmni og berskjöldun sem fylgir bæði hjúkrunarstarfinu og listinni. Einhverntíman var ég að opna listasýningu og þá dreymdi mig að ég stæði fyrir allra augum og væri alveg gegnsæ. Ég hef ekki getað sinnt listinni mikið undanfarið, en ég er nýbyrjuð að undirbúa efni á næstu sýningu sem verður í Deiglunni. Ég er að gera nýjar myndir fyrir hana, þar sem náttúruvættir eru í aðalhlutverki. Sú sýning verður opnuð í júní. Það sem ég er að sýna núna á Amtinu var tilbúið, það er svolítið síðan ég gerði þær myndir.“
Gréta hefur málað töluvert á steina í gegnum tíðina. „Það snýst um að finna steina sem hafa sérkenni sem geta breyst í falleg tákn. Þessi tákn og dældir koma skemmtilega fram í túlkun lita. Það er eins með mennina, þegar þú sérð styrkleika og hæfileika sem þú getur lokkað fram,“ segir Gréta. Mynd: RH
Við þurfum að gera meira af því að vera við sjálf
„Fjörusteinarnir eru svolítið eins og við eldra fólkið,“ segir Gréta, þegar hún sýnir blaðamanni steinana. „Öldurnar hafa rúnnað á okkur hornin og því sem við eldumst og velkjumst meira í lífinu verðum við síður dómhörð og hvöss. Mildin sem kemur með aldrinum sýnir manni að það sé allt í lagi þó að það sé ekki allt eins og manni þætti best. Við erum öll ólík. Svo sjáum við hvað við höfum verið upptekin af því að geðjast öðrum, rugga engum bátum og vera þægileg. Við konurnar erum allavega oft þar. Mig dreymdi í nótt að ég væri Freyja. Sterk, sjálfstæð og dugleg,“ segir listakonan Gréta að lokum.
Sýning Grétu á Amtsbókasafninu stendur fram í byrjun júní og þar verður hægt að kaupa eftirprent af teikningum hennar. Einnig verður hægt að skoða bækur, vættakort o.fl. frá þremur sjáendum og frumkvöðlum, sem eru Margrét frá Öxnafelli, Erla Stefáns og Bryndís Fjóla hjá Huldustíg.