Fara í efni
Menning

„Skemmtilegasta kvöld ársins“ – Hárið í Hofi

„Skemmtilegasta kvöld ársins“ – Hárið í Hofi

Laugardaginn 16. apríl verður söngleikurinn Hárið sýndur í Hofi á Akureyri. Um að ræða einstaka sýningu; hún verður aðeins sýnd þetta eina kvöld. Vert er að geta þess að þetta í þriðja skipti sem stefnt er að því að sýna söngleikinn en heimsfaraldurinn hefur gert að það verkum að tvisvar sinnum hefur þurft að fresta.

„Þetta er í þriðja skiptið á tæpum tveimur árum sem við reynum að sýna þessa sýningu og nú er loksins komið að því. Við getum hreinlega ekki beðið - þetta verður skemmtilegasta kvöld ársins,“ segir Ívar Helgason, einn leikara í sýningunni, en auk hans verða á sviðinu Árni Beinteinn, Jónína Björt, Guðný Ósk, Þórdís Björk, Hafsteinn Vilhelmsson og Arnþór Þórsteinsson.

Söngleikinn ætti fólk að þekkja vel enda hefur hann verið settur upp reglulega á Íslandi undanfarna áratugi auk þess sem kvikmynd var gerð eftir honum. „Það er ekkert að ástæðulausu að þessi söngleikur sé settur upp reglulega á Íslandi og um allan heim. Tónlistina úr söngleiknum þekkja auðvitað flestir og áhorfendur fá að heyra öll lögin - Að eilífu, Ég á líf, Manchester, Frank Mills, Lifi ljósið, Blikandi stjörnur og mörg fleiri,“ segir Þórdís Björk.

Ívar gerir ráð fyrir því að fólk eigi eftir að skemmta sér vel og hefur hann smá reynslu af því að sýna þennan söngleik en hann var til dæmis á meðal leikara í uppsetningunni í Hofi fyrir nokkrum árum síðan. „Fólk getur fyrst og fremst búist við skemmtilegu kvöldi. Þetta verður mikið fjör í söngleik þar sem frábær tónlist stjórnar ferðinni, tónlist sem allir þekkja,” segir Ívar.

Sem fyrr segir verður sýning aðeins sýnd þetta eina kvöld. „Það er eitthvað svo sérstakt við að sýna svona sýningu bara eiitt kvöld. Þú færð bara eitt tækifæri og munt skilja allt eftir á sviðinu,“ segir Þórdís.

Auk leikhópsins verður fjögurra manna hljómsveit undir stjórn Guðjóns Jónssonar á sviðinu og tíu manna kór. Leikstjóri sýningarinnar er Aníta Ísey Jónsdóttir.