Skapandi fjölskylduhátíð á Hjalteyri um helgina

Á laugardaginn kemur, 2. ágúst, verður fjölskylduhátíð á Hjalteyri. Fjölbreytt dagskrá verður allan daginn, meðal annars er frítt í pottinn allan daginn og hægt verður að veiða á tveimur bryggjum. Hvatt er til skúlptúrabygginga í fjörunni og sá sem montar sig mest fær glaðning. Enginn þarf að svelta, en það verður opið á Eyri Restaurant frá 11-22 og svo verður grænmetismarkaður á staðnum.
Listafólkið á Hjalteyri verður með opið hús, sýningin 'Úr fullkomnu samhengi' verður opin í Verksmiðjunni og Skinnaloft Lene. Það verður verbúðarstemning eins og Hjalteyringum einum er lagið við bryggjuna og samkvæmt auglýsingu viðburðarins verða allar veitingar í verbúðum fríar. Ef fólk vill vita meira um hverslags veitingar það eru, er vissara að mæta og athuga það.
Þegar líða tekur á kvöldið verður karamelluregn fyrir krakkana (og fullorðna með veikan blett fyrir sætindum) og grillveisla við tankana. Hægt verður að kaupa grillmat og meðlæti á Eyri, en það má líka koma með sinn eigin grillmat og verður aðstaða til þess að grilla í boði.
Margt fleira er á dagskrá, en áhugasöm eru hvött til þess að skoða dagskrána til þess að glöggva sig á heildarmyndinni. Fólki gefst kostur á að sýna snilli sína, en það verður bæði tónlistarbingó og BarSvar í Tankinum um kvöldið. Deginum verður slúttað með kyndlagöngu frá heitapottinum og svo verður flugeldasýning.
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.