Fara í efni
Menning

Sinfóníuhljómsveitin og heimurinn

Tónlist í tölvuleik tekin upp í Hofi í nóvember á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Það má segja að við höfum verið í tónleikasvelti í heilt ár. Því miður hefur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ekki getað haldið tónleika, vegna lokana og takmarkana af ýmsu tagi. Vonandi er að með hækkandi sól verði mögulegt að bjóða fólki um á að hlýða á tónleika í sal. En biðin hefur verið löng og þolinmæðin helsta bóluefnið.

Þrátt fyrir þetta hefur í miðjum heimsfaraldrinum verið mjög mikið að gera hjá SinfoniaNord-verkefninu, sem mætti kalla sprotaverkefni SN. Þar hefur farið fram stórmerkileg starfsemi, tekin upp margvísleg tónlist og að sögn Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar framkvæmdastjóra SN hefur þessi tónlist meðal annars verið gerð fyrir kvikmyndir, erlendar sem innlendar, tölvuleiki, hljómplötur, söngleiki og sjónvarpsþætti. Skammt er að minnast kvikmyndarinnar The DIG, sem hefur verið sýnd á Netflix við ágætar undirtektir og náttúrulífsþátta David Attenborough, Perfect Planet, sem nú eru sýndir um allan heim, meðal annars á Stöð 2. Öll tónlistin í þessum myndum var tekin upp í Hofi á vegum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Íslenskir hljóðfæraleikarar, tæknifólk og starfsfólk Menningarfélags Akureyrar unnu þetta traustum höndum. Þetta er merkilegt og mikið framtak og með þessari starfsemi, sem hér hefur getað farið fram á meðan það var ekki hægt í öðrum löndum, er smátt og smátt verið að stimpla Akureyri á Íslandi inn í veröld afþreyingar um víða veröld. Evrópskt, bandarískt og íslenskt afþreyingarefni, meðal annars kvikmyndir, sjónvarpsefni og tölvuleikir með tónlist úr Hofi á Akureyri er orðinn veruleiki en var það ekki fyrir fáeinum misserum.

Þorvaldur tekur fram að SinfoniaNord-verkefnið hafi verið komið á góðan skrið löngu fyrir faraldurinn og tónlist héðan hafi hljómað víða um heim í stórum og smáum verkefnum. Verkefnið hefur einnig hlotið margvíslegar viðurkenningar, meðal annars Nýsköpunarverðlaun Akureyrar og Hvatningarverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Núna um helgina verður einhver stærsta upptökuhrina SinfoniaNord í Hofi þar sem 40 manna hljómsveit Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands leikur og tekur upp splunkunýja tónlist Þórðar Magnússonar við 100 ára gamla kvikmynd, Sögu Borgarættarinnar, sem var fyrsta leikin kvikmynd tekin á Íslandi, gerð eftir sögu Gunnars Gunnarssonar, og frumsýnd í Kaupmannahöfn 1920. Stjórnandi hljómsveitarinnar í upptökunum verður Bjarni Frímann Bjarnason, hinn ungi aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hann hefur tekið þátt í allmörgum verkefnum hér fyrir norðan, ýmist sem hljóðfæraleikari eða stjórnandi. Sama má segja um akureyrska tónskáldið Atla Örvarsson, sem ásamt Þorvaldi Bjarna stofnaði SinfoniaNord-verkefnið árið 2015. Hann hefur stjórnað og leikið í mörgum verkefnum, bæði eigin verkum og annarra.

Seinna á þessu ári munu Íslendingar geta notið afrakstursins af þessu starfi þegar Saga Borgarættarinnar verður sýnd í Hofi með þessari nýju tónlist Þórðar.