Fara í efni
Menning

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna stofnuð

Michael Jón Clarke stofnandi hinnar nýju Hljómsveitar Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Michael Jón Clarke stofnandi hinnar nýju Hljómsveitar Akureyrar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tónlistarmaðurinn Michael Jón Clarke hefur ráðist í það verkefni að stofna sinfóníuhljómsveit áhugamanna á Akureyri. Tekið verður upp gamalt og gott nafn: Hljómsveit Akureyrar en sveit með því nafni var fyrst stofnuð í desember árið 1915 og mun hafa verið fyrsta klassíska hljómsveitin á Íslandi.

Michael – Mikki, eins og hann kallar sig gjarnan – verður stjórnandi hljómsveitarinnar og æfingar verða hálfsmánaðarlega í Hofi. Starfsemin hefst eftir áramót með æfingum fyrir strengjahljóðfæraleikara og öðrum hljóðfærum verður bætt við síðar.

Grasrótin mikilvæg

Fyrir er á Akureyri Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem Mikki segist að mörgu leyti mjög ánægður með en hann vill efla grasrótina, eins og hann hefur áður tekið þátt í. Hann segir tilganginn með nýju hljómsveitinni að skapa hljóðfæraleikurum á svæðinu vettvang til að nýta og efla þekkingu sína, og efla menningarlíf bæjarins. Stefnt sé að því að halda tónleika í Hamraborg í Hofi, þar sem einleikarar og einsöngvarar af svæðinu muni koma fram auk hljómsveitarinnar.

„Það sem okkur vantar í dag er þetta grasrótardæmi. Við þurfum bæði að fá tækifæri til að gera betur í að kynna fólki sinfóníska tónlist, í skólum og annars staðar, og gefa fólki sem hefur lært á hljóðfæri tækifæri að spila. Sumir hafa lært mjög mikið en eru í öðrum störfum; hafa ef til vill lært í 10 ár en eru bara með fiðluna inni í skáp! Mér finnst nauðsynlegt að gefa því fólki tækifæri, ég er búinn að tala við nokkra og fólk er mjög spennt,“ sagði Michael við Akureyri.net.

Uppbyggingarstarf

Rúmlega hálf öld er síðan Michael Clarke settist að á Akureyri og hóf að kenna fiðluleik. Hann kveðst hafa byggt upp sinfóníuhljómsveit í skólanum á sínum tíma. „Við héldum reglulega tónleika bæði heima og erlendis og margir af þekktustu hljóðfæraleikurum landsins slitu ungir tónlistarskóm sínum í þessari hljómsveit, m.a. sem einleikarar, og sama má segja um söngvara.“

Hann nefnir víóluleikarana Herdísí Önnu Jónsdóttur og Þórunni Ósk Marinósdóttur, Þóri Jóhannsson kontrabassaleikara og Emil Friðfinnsson hornleikara. Öll fjögur leika nú með Sinfóníuhljómsveit Íslands og hann nefnir einnig Örn Magnússon píanóleikara og stórtenórinn Kristján Jóhannsson, sem komu fram með hljómsveit skólans á sínum tíma.

Mikki var síðan einn stofnenda Kammersveitar Akureyrar sem síðar varð Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Að því leyti má segja að hann sé kominn í hring. Að þessu sinni hefur hann fengið Menningarfélag Akureyrar, Tónlistarfélag Akureyrar og Tónlistarskólann á Akureyri til samstarfs og hlakkar mikið til.

Mjög auknar kröfur

„Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur náð ótrúlegum frama og tekið að sér verkefni á heimsmælikvarða. Kröfurnar hafa aukist til muna og er það nú ekki á færi nema færustu atvinnuhljóðfæraleikara að starfa með henni,“ segir Mikki. „Ekki hafa allir góðir tónlistarmenn eða nemendur tíma til að æfa sig og þjálfa upp á því plani. Síðustu árin hefur þátttaka nemenda og spilara á svæðinu minnkað til muna og af þeim sökum koma margir hljóðfæraleikarar að sunnan.“

Hann bætir við: „Við megum vera mjög glöð með árangur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en mig langar að gera eitthvað fyrir fólkið sem hefur lært en hefur tónlistina ekki sem aðalstarf, eins og ég sagði áðan. Fólk sem getur ekki æft sig í fjóra til fimm klukkutíma á dag en langar að spila á hljóðfæri. Líka nemendur sem þurfa að fá sinfóníska upplifun eins og krakkarnir sem ég nefndi áðan fengu í gamla daga. Það er mjög mikilvægt fyrir framtíðina.“