Fara í efni
Menning

Silfurblýanturinn – bernska Davíðs

Valgerður H. Bjarnadóttir heldur fyrirlestur um Davíð Stefánsson skáld næsta föstudag í salnum á hjúkrunarheimilinu Hlíð. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

„Davíð Stefánsson skáld fæddist og ólst upp í bænum sem hann kenndi sig ætíð við, Fagraskógi. Þar átti hann góðar stundir og erfiðar, var umvafinn ást og umhyggju, en tókst á við veikindi, áföll og sorgir. Í grein um Ólaf Davíðsson, móðurbróður skáldsins, sem m.a. er að finna í bókinni Mælt mál, er lýsing á jarðarfarardegi Ólafs eftir að hann drukknaði í Hörgá. Þá er Davíð 8 ára,“ segir í tilkynningu frá AkureyrarAkademíunni, og vitnað er í skrif drengsins:

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég var við jarðarför. Meðan húskveðjan var flutt, stóð ég við hlið móður minnar og kreppti hægri hönd um silfurblýant, sem Ólafur hafði gefið mér nokkru áður. Þetta fasta tak, um fyrsta blýantinn sem ég eignaðist, var mér hugsvölun.“

Örlagavaldur?

„Ef til vill var þessi silfurblýantur örlagavaldur í lífi ungs manns, sem var margt til lista lagt, en helgaði líf sitt skáldagyðjunni,“ segir í tilkynningunni.

„Auk hugleiðinga um bernsku skáldsins og bernskusagnabrota frá honum sjálfum, les Valgerður nokkur af fyrstu ljóðunum sem varðveist hafa, auk seinni ljóða sem vísa til bernskunnar.“

Valgerður er félagi í AkureyrarAkademíunni, starfar sjálfstætt að skrifum, ráðgjöf og fræðslu, en var um nokkurt skeið húsfreyja í Davíðshúsi og hefur síðustu ár fjallað víða um líf og störf Davíðs í fyrirlestrum og spjalli.

Eins og áður sagði fer fyrirlesturinn fram í salnum á hjúkrunarheimilinu Hlíð, Austurbyggð 17, föstudaginn 16. september. Hann hefst kl. 13:30, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

_ _ _

  • Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð AkureyrarAkademíunnar á þessu ári fyrir íbúa hjúkrunarheimilanna og aðra bæjarbúa. Allt frá árinu 2016 hefur AkureyrarAkademían boðið íbúum heimilanna upp á fyrirlestra sem hafa jafnframt verið opnir fyrir aðra bæjarbúa. Markmiðið er að bjóða upp á fræðandi fyrirlestra um fjölbreytt viðfangsefni með aðgengilegum og áhugaverðum hætti. Norðurorka hf. styrkir fyrirlestraröðina á þessu ári.