Fara í efni
Menning

Sigurhæðir og allt listafólkið

Kristín Þóra Kjartansdóttir ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þegar menningarhúsið var opnað á Sigurhæðum á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigurhæðir voru opnaðar almenningi nýlega, en Flóra starfrækir nú menningarhús í þessu sögufræga húsi sem kúrir á einstaklega fallegum og sérstæðum stað í gróðurkvos í kirkjustöllunum á Akureyri. Þar ræður Kristín Þóra Kjartansdóttir ríkjum, er eigandi og framkvæmdastjóri Flóru.

  • Athugið að við fréttina er tengd myndasyrpa sem birtist á Akureyri.net þegar menningarhúsið var opnað með pompi og prakt um daginn. 

Á þessum sögufræga stað hefur verið sett upp heildarsýning á aðalhæðinni þar sem koma saman fersk verk eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur og Jón Laxdal, sem lést á síðasta ári, og ýmislegt sem tengist arfleifð staðarins og sögu hússins. Sýninguna hannaði Þórarinn Blöndal. Á Sigurhæðum er líka miðlað fleiri vörum og verkum eftir listafólk, hönnuði og bændur; þau sem eru í frumsköpun..

Það voru hjónin Guðrún Runólfsdóttir og þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson sem létu reisa Sigurhæðir árið 1903. En frá þeim tíma hefur fjöldi manns búið í húsinu og ýmis starfsemi verið, og um tíma bjuggu þar fjórar fjölskyldur eða aðilar samtímis. Á vegg í „Bestu stofu“ hússins er tímalína hússins, sem fróðlegt er að skoða og fjölþætt saga eins húss kemur fram.

Hvers vegna húsið fékk nafnið Sigurhæðir skal ósagt látið því Matthías sjálfur talaði um Silfurhæðir en hafði þó ort kvæði með línunni: „og örðug er leiðin upp á Sigurhæðir“ en er þá að tala um það sem hann vann að alla ævi, að lyfta fólki upp á hærra plan, ekki endilega trúarlega, heldur andlega og í menningarlegu tilliti.

Umdeild og elskuð lykilpersóna í íslensku menningar- og mannlífi

Í kynningartexta um Menningarhús í Sigurhæðum segir: „Matthías þekkja margir sem höfund þjóðsöngsins, sem okkar helsta sálmaskáld, prest og listamann. Það sýnir mikilvægi hans sem slíks að annar tveggja var hann fyrstur Íslendinga til að hljóta laun frá Alþingi til ritstarfa árið 1891 og fékk hann þau allt til dauðadags 1920. Einar Benediktsson skáld talaði um Matthías sem gneista enda „gustaði af honum bæði ferskum andblæ og frá honum stafaði mannlegri hlýju.“

Matthíasi þótti sárt að horfa upp á þær þjáningar sem fátæktin kostaði fólk. Hann orti Lofsöng, þjóðsöng Íslendinga og eftir að hann flutti til Akureyrar samdi hann „Ísland volaða land“ sem litið var á sem níðkvæði um Ísland, en birti það í blaði í Íslendinganýlendunni í Winnipeg. Það tók fólk nokkra daga að átta sig á því hver hafði ort þetta og viðbrögðin voru mörg hver hörð. Einhverjum var lengi í nöp við Matthías eftir þetta. Akureyringar vissu ekkert hvað þeir ættu að gera við þennan prest sem yrkir níðkvæði. Þetta var svo viðkvæmt, margir voru að flytja vestur um haf og þeir sem urðu eftir voru margir í sárum því hér var rosaleg fátækt.

Kristín Þóra Kjartansdóttir eigandi Flóru, menningarhúss útskýrir að fátæktin og eymdin sem fólk bjó við sé ástæða þess að Matthías orti þetta kvæði. Á þeim tíma sem Matthías var enn prestur hafði hann heimsótt aðra fjölskyldu sem var hreinlega að deyja úr hungri – fólk átti mjög bágt og Matthías fann mjög til með því og yrkir því þetta umdeilda kvæði.

Matthías var berorður um hlutina og því stundum mjög umdeildur en hann var líka elskaður og dáður og mikilvæg fyrirmynd fyrir yngri listamenn eins og til dæmis Davíð Stefánsson.

Kristín Þóra Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Flóru, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórarinn Blöndal, sem hannaði sýninguna á Sigurhæðum, þegar menningarhúsið var opnað á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Úr fátækt til virðingar

„Guðrún og Matthías komu með stóran barnahóp með sér til Akureyrar og áttu í fjárhagslegu basli fyrst um sinn,“ segir Kristín Þóra. „Það var ekki búið að gera upp við þau á Odda á Rangárvöllum þar sem þau höfðu verið með prestsbúskap, stórt bú og myndarlegt heimili. Þannig að fyrsta veturinn hér á Akureyri söfnuðu hjónin töluverðum skuldum með allan þennan barnahóp og fólk hafði áhyggjur af því hér að þau færa bara á sveitina, presturinn og prestsfrúin.“

Kristín bætir við: „Prestar voru ekkert endilega efnaðir. Það fór eftir því hvernig brauð þeir fengu og brauðið hér á Akureyri var frekar magurt. Aðeins þetta pínulitla hús í Innbænum og nánast ekkert land með til að heyja. Þau voru með kú til að mjólka ofan í börnin, en þetta náði varla að vera sjálfsþurftarbúskapur.“ Guðrúnu var mjög kært að flytja síðar í Sigurhæðir, í stærra og veglegra hús, líka af því að hún vildi komast til meiri virðingar í akureyrsku samfélagi. Þarna eru börnin líka flest komin á legg og flutt að heiman.

Texti og textíll

Hjónin á Sigurhæðum tóku virkan þátt í þeim þjóðfélagsbreytingum sem áttu sér stað áratugina í kringum aldamótin 1900 og sköpuðu þannig farveg komandi kynslóðum til handa. Innsetningar í Sigurhæðum veita innsýn í líf Guðrúnar og Matthíasar, þeirra fólks, verka þeirra, lífsmáta og anda þess tíma.

„Í Sigurhæðum var Matthías ekki lengur prestur heldur fyrst og fremst listamaður. Við höfum dregið fram þennan frjálslynda og hressa mann sem geislaði af, hafði góðan húmor, var hrókur alls fagnaðar í öllum samkvæmum og heima hjá sér. Og líka: Þegar maður gerir það þá koma allar konurnar fram og allt þetta fólk í kringum hann,” segir Kristín.

Í Sigurhæðum var í tíð Guðrúnar og Matthíasar mikið líf í húsinu, hannyrðir, söngur, leiklist, ritlist og tónlist. Kontórinn átti að vera hið eiginlega herbergi húsbóndans á heimilinu en Matthías varði litlum tíma þar inni. Hann fann sig miklu betur við skriftir í borðstofunni umkringdur sínu fólki; eiginkonu, systur, dætrum, barnabörnum, vinum og venslafólki. Þar stendur skrifpúltið hans enn, og þar er líka aftur allur textíllinn kominn.

Konurnar á Sigurhæðum

Að jafnaði bjuggu 12-15 manns í Sigurhæðum hverju sinni. Í tíð Guðrúnar og Matthíasar bjuggu konurnar á heimilinu til alls kyns textíl sem var seldur í búð niður í bæ. Þannig öfluðu þær töluverðra tekna fyrir heimilið.

Konurnar sem um ræðir eru Þóra Jochumsdóttir, systir Matthíasar, ógift og hafði áður búið í Kanada og Þóra dóttir Matthíasar, sem flutti heim með þrjár dætur eftir að hún missti eiginmann sinn á Seyðisfirði. Dóttirin Þóra opnaði svo verslun í Hafnarstræti þar sem textíll kvennanna úr Sigurhæðum var seldur.

Matthea Guðrún Matthíasdóttir, átti tvö börn með sínum manni en hann hvarf frá og hún flutti þá aftur heim í Sigurhæðir. Þannig að barnabörnin fimm ólust upp á heimili afa síns og ömmu. Þá er ótalin fósturdóttirin Helga Eggertsdóttir, bróðurdóttir Matthíasar, en hún var einnig til heimilis á Sigurhæðum. Einnig aðstoðarkonur og vinnukonur.

Málsvari þeirra sem ekki höfðu rödd í samfélaginu

„Þau sem eiga bæði tungu og rödd geta haft áhrif“ stendur í texta á vegg kontórsins á Sigurhæðum. Alla sína ævi var Matthías málsvari þeirra sem ekki áttu sér rödd í samfélaginu, voru utangarðs; fátæklingar, málleysingjar, konur og börn. Hann fór til að mynda á fyrsta alþjóðlega þingið um kvenréttindamál í London.

Í kynningartexta um Menningarhús í Sigurhæðum er þjóðskáldinu líst sem svo: „Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn og mikill baráttumaður fyrir réttindum kvenna. Það kemur kannski einhverjum á óvart, en einn elsti íslenski kvenréttindasöngurinn er „Fósturlandsins Freyja“, sem Matthías Jochumsson orti árið 1875. Í anda jafnræðissinnans og kvenfrelsisfrömuðarins Matthíasar verður leitað sérstaklega eftir því að draga fram þær konur sem hér koma við sögu, sem og listafólk af ólíkum uppruna, skapa fyrirmyndir og tengja við okkar samtíma.“

Græn og væn gróska

Á betri heimilum voru plöntur og það átti við um heimili Guðrúnar og Matthíasar. Kristín Þóra hefur skoðað hvaða heimilisplöntur voru algengar á þessum tíma og Menningarhúsið í Sigurhæðum skartar fjölda lifandi blóma sem mikil vinna er lögð í að halda „hressum“ eins og staðarhaldari orðar það. „Allar plönturnar og textíllinn sem er hér inni skiptir miklu máli og kallar fram það andrúmsloft og heimilisbrag sem við viljum ná fram“, segir Kristín Þóra, „allt er þetta valið inn með það í huga að kalla fram andrúmsloftið frá þessum tíma og tengja við þá strauma sem eru í gangi í dag.“ Flóra menningarhús heldur þannig áfram að vera græn og væn og miðla áfram hugmyndum um og leiðum til einfaldari og náttúruvænni lífsmáta. Þau sem voru uppi um 1900, áður en neyslusamfélagið kemur til sögunnar, geta verið okkur mikilvægar fyrirmyndir.

Konur í sviðsljósinu

Matthías var ritstjóri nokkurra blaða og árið 1888 startaði hann Lýð á Akureyri. Í fyrsta tölublaðinu fjallaði hann um þrjú rit sem öll voru eftir konur þar á meðal Ólöfu Sigurðardóttur, skáldkonu og ljósmóður frá Hlöðum. Theodóru Thoroddsen, sem var náfrænka, vinur og skáldafélagi Matthíasar og skáldkonuna Huldu (Unni Benediktsdóttur Bjarklind), sem samdi meðal annars þjóðhátíðarljóðið „Hver á sér fegra föðurland.“ Þessar konur voru meðal þeirra sem Matthíasi var annt um að koma á framfæri.

Torfhildur Hólm skáld er líka dregin fram í dagsljósið í Sigurhæðum, því hún, ásamt Matthíasi, fékk fyrst íslenskra rithöfunda skáldalaun árið 1891. Torfhildur var á skáldalaunum í næstum því áratug, fékk 500 krónur á ári, en að tveimur árum liðnum var þeim breitt í ekknastyrk.

Kristínarsjóður

Kristín Sigfúsdóttir skáldkona bjó í Sigurhæðum á árunum 1936-1939. Hún var fædd á Helgastöðum í Eyjafirði og bjó síðar í Kálfagerði. Hún var mikilsvirtur rithöfundur og fékk skáldalaun frá Alþingi í 22 ár, meðal annars á sama tíma og Davíð Stefánsson.

Kristínarsjóður var stofnaður á aldarafmæli skáldkonunnar, 13. júlí 1976 til að heiðra minningu hennar. Markmið sjóðsins er að ýta undir góða málnotkun og efla notkun móðurmálsins með markvissri ritun nemenda á unglingastigi. Í Hrafnagilsskóla er þremur til fjórum nemendum á unglingastigi veitt bókaverðlaun ár hvert fyrir árangur í íslensku, þ.e.a.s. leikni í notkun móðurmálsins í ritun. Oft hafa þessar verðlaunaritgerðir verið birtar á heimasíðu Hrafnagilsskóla eða Eyvindi, blaði sveitafélagsins Eyjafjarðarsveitar.

Listamaður meðal listamanna

Matthías var gríðarlega afkastamikill þýðandi og var til að mynda fyrsti Íslendingurinn til að þýða Shakespeare. Hann var einnig fyrstur til að skrifa leikrit á íslensku, Útilegumennirnir, síðar Skugga Sveinn. Hann vildi gera Íslendinga að þjóð meðal þjóða og lagði áherslu á mikilvægi tungumálsins.

Matthías dvaldi töluvert í Danmörku en jafnvel meira í Bretlandi þar sem hann átti góðan vin og kollega Eirík Magnússon sem er mikilvægur í íslenskri menningarsögu en hefur ekki verið fjallað um. Og Eiríkur var svo góður vinur William Morris, sem var aðalnúmerið í Bretlandi í lok 19. aldar og fram yfir aldamótin 1900. Á Sigurhæðum er veggfóður úr hans smiðju. Morris var einnig þýðandi og rithöfundur og þýddi m.a. íslensku fornsögurnar úr íslensku yfir á ensku með Eiríki Magnússyni, sem bjó í London og Matthías dvaldi líka hjá þeim.

Aftur að nútímanum

Á efri hæð Sigurhæða og í kjallara eru vinnustofur fyrir listafólk og hönnuði og aðstaða fyrir starfsfólk til að forvinna hluti og stunda rannsóknir. Í litlu notalegu herbergi hafa tvær listakonur aðstöðu fyrir hugmyndavinnu, þær Fanney Snjólaugardóttir tónlistarkona og Jenný Lára Arnórsdóttir leikritahöfundur. Herbergið er annað tveggja svefnherbergja Guðrúnar og Matthíasar og er inn af því stærra. Líklegt er að þar hafi barnabörn sofið þar sem svo margt fólk bjó á heimilinu. Á efri hæðinni er líka Rakel Hinriksdóttir, teiknari og grafískur hönnuður. Í enn einu herbergi er Cave Canem hönnunarstofa. Þar hefur Ingibjörg Berglind, einnig teiknari og grafískur hönnuður aðstöðu sína og tekur að sér ýmis verkefni. Þannig er í húsinu unnið bæði með núlifandi listafólk og þau sem voru að fyrir hundrað árum og verkum þeirra miðlað til almennings. Unnið er með þessum hópi sem er í frumsköpun í samfélaginu.

Lifandi hús fyrir almenning

Menningarhúsið verður með eigin viðburði, bæði úti í garði og innivið. Svo er líka hægt að koma á Sigurhæðir og vera með smærri fundi, prjónaklúbb eða leshring. Það er líka hægt að vera með stofutónleika eða upplestur. Tekið er á móti hópum og veittar leiðsagnir. Í haust verður svo unnið sérstaklega með skólahópum og upprennandi listafólki.

Auk Kristínar Þóru starfa dags daglega í Menningarhúsi í Sigurhæðum þau Sölvi Halldórsson íslenskufræðingur, Kristín María Hreinsdóttir safnafræðingur, og Þorbjörg Þóroddsdóttir. Mörg fleiri koma þó að staðnum. Þórarinn Blöndal er sýningarhönnuður, Hlynur Hallsson listrænn ráðgjafi og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir sér um listsmiðjur fyrir skólahópa.

Menningarhúsið er opið alla daga vikunnar frá klukkan 10.00 til 18.00 frá 6. júní til og með 6. nóvember.

Þau sem vilja nýta sér aðstöðu í húsinu til funda- eða viðburðarhalds hafi samband: flora.akureyri@gmail.com