Sigrún María heldur tónleika í Hlöðunni

Sigrún María Pétursdóttir er ung tónlistarkona frá Akureyri, en hún semur og flytur eigin tónlist undir listamannsnafninu Cohortis. Sigrún er að útskrifast frá Menntaskólanum á Akureyri af tónlistarbraut í vor, og hún ætlar að halda útskriftartónleika í Hlöðunni í Litla-Garði annað kvöld, miðvikudaginn 30. apríl kl. 20.00.
„Ég er búin að vera í Tónlistarskólanum á Akureyri síðustu þrjú árin að semja og taka upp eigin lög,“ segir Sigrún María, en bróðurparturinn af námi hennar í MA er í tónlistarskólanum, þar sem hún er á tónlistarbraut. „Ég ætla að flytja mín eigin lög ásamt nokkrum ábreiðum á tónleikunum í Hlöðunni, en ég myndi segja að tónlistin mín flokkist undir indie-rokk að mestu.“
Sigrún María spilar á gítar og syngur, en með henni á tónleikunum verða þau Valdimar Kolka, sem spilar á gítar, Helga Björg Kjartansdóttir á bassa, Hekla Sólveig Magnúsdóttir á hljómborð og Elías Guðjohnsen Krysiak á trommur.
„Framundan hjá mér er að fara í lýðháskóla í Svíþjóð, sem leggur áherslu á listir,“ segir Sigrún María um framtíðarplönin. „Ég ætla að halda áfram að semja og vinna meira með tónlistina mína, en ég verð á tónlistarbraut.“
Það kostar 3.000 kr inn á tónleika Sigrúnar Maríu í Hlöðunni, greitt við dyrnar.
Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook.
Sigrún María spilaði fyrir gesti á Vorkomu Akureyrarbæjar á sumardaginn fyrsta, í síðustu viku. Þar flutti hún frumsamið lag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir