Fara í efni
Menning

Sif Tulinius og Hjálmar H. á tónleikum í Hofi

Sif Margrét Tulinius fiðluleikari.

Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir tónleikum sunnudaginn 21. nóvember klukkan 16 í Hömrum í Hofi. Sif Margrét Tulinius fiðluleikari og Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld eiga þar stefnumót, eins og það er orðað í tilkynningu.

Sif leikur tvö verk fyrir einleiksfiðlu. Annars vegar Sónötu no 1 í g-moll eftir Johann Sebastian Bach sem samin var árið 1720 og hins vegar nýtt verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Partítu fyrir einleiksfiðlu, samin 300 árum síðar eða árið 2020. „Hjálmar mun segja frá verkunum á tónleikunum á skemmtilegan og fræðandi hátt eins og honum einum er lagið.“

Miðaverð er 3.000 krónur en 20% afsláttur er fyrir félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar og fiðlunemendur. Miðasala er á mak.is og tix.is og í miðasölu Hofs. Vegna samkomutakmarkana eru einungis 50 miðar í boði á þennan viðburð. Ekki er krafist hraðprófa en fólk beðið um að gæta að eigin sóttvörnum.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóði og Menningarfélagi Akureyrar sem og Tónlistarsjóði.

  • Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld.