Fara í efni
Menning

Selur list og styrkir börn í Gvatemala

Selur list og styrkir börn í Gvatemala

Akureyrski fjöllistamaðurinn Stefán Elí opnaði nýlega málverkasýningu í Reykjavík þar sem hann selur litrík verk til styrktar börnum í Gvatemala. Hann kveðst þegar hafa selt tvö verk og hefur gaman af því að gefa upp verðið – þau seldust á 144.444 krónur hvort!

„Ferðalög mín um þennan heim og um heima handan veita mér mikinn innblástur. Ég ferðaðist mikið á síðasta ári og eyddi meðal annars þremur mánuðum í Mexíkó og bjó í sex mánuði í Gvatemala,“ segir Stefán Elí. „Ásetningur minn er að ýta undir aukna meðvitund, sköpun, gleði, kærleik og ást í gegnum mína list og að hvetja fólk til að lifa lífinu til fulls.“

  • Á myndinni eru Stefán Elí og Linda Mjöll, sem keypti verkið sem þau halda á.

Dásamlegar viðtökur

Verk Stefáns eru til sýnis á Mama Reykjavík, „sem er yndislegur vegan veitinga- og viðburðastaður staðsettur á horninu þar sem Laugarvegur og Skólavörðustígur mætast við upphaf regnbogans,“ segir listamaðurinn. „Viðtökurnar hafa verið alveg hreint dásamlegar og ég er innilega þakklátur öllum þeim sem hafa gefið sér tíma til þess að upplifa verkin mín. Það er yndislegt að fá að deila minni sköpun með heiminum og það gleður mig innilega að heyra hversu góð áhrif mín list hefur á fólk.“

Stefán Elí gefur 22% alls ágóða af sölu málverkana til styrktar Maya fjölskyldna og barna við vatnið Atitlán í Gvatemala. Fénu verður varið til að myndlistabúnað, hljóðfæri og tónlistarbúnað. „Ég vinn í samstarfi við góðgerðarsamtökin EYEAMU. Samtökin starfa í Gvatemala og styðja við fólkið þar á ýmsa vegu. Nýlega safnaðist peningur í gegnum sölu myndlistar til þess að byggja hús handa sjö barna fjölskyldu, kaupa eldavélar handa 17 fjölskyldum og færa 150 börnum þorpanna nýja skó og sokka.“

20% ágóða rennur beint til Mama Reykjavík, sem Stefán segir þjóna mikilvægu hlutverki í lífi margra í borginni „og tengir saman skapandi fólk úr öllum áttum. Mama býður reglulega upp á kakó athafnir, tónlistarviðburði, listasýningar og ýmislegt fleira. Mama er frábær staður til þess að njóta hágæða matar og félagskapar,“ segir hann.