Fara í efni
Menning

Sanngjarn sigur SA en nokkuð torsóttur

Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði tvö af fjórum mörkum SA í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

SA sigraði Fjölni í Toppdeild karla í íshokkí í kvöld. Lokatölur urðu 4-3 eftir að SA Víkingar höfðu þrisvar lent undir í leiknum. Sigurinn var þannig nokkuð torsóttur, en SA ógnaði marki gestanna þó mun meira allan leikinn og átti til dæmis 46 skot á mark á móti 20 skotum gestanna. Að vissu leyti jafn og spennandi leikur, en SA þó sterkara liðið þegar á reyndi.

Það voru ekki liðnar nema 17 sekúndur þegar gestirnir tóku forystuna, reyndar með marki frá fyrrum leikmanni SA, Birki Einissyni.
Hafþór Andri Sigrúnarson jafnaði þegar fimm mínútur voru eftir af fyrstu lotunni. Arnar Kristjánsson átti þá skot að marki og náði Hafþór Andri að breyta stefnu pökksins í loftinu, að því er virtist, þannig að markvörður Fjölnis átti litla möguleika á að bregðast við. Jafnt eftir fyrstu lotuna.

Gestirnir náðu aftur forystunni með marki eftir snögga sókn, tveir á móti einum, Freyr Waage átti skot í stöng og Krisján Jóhannesson var klár í frákastið og skoraði. Skammt var eftir af öðrum leikhluta þegar Róbert Hafberg skoraði annað mark SA og jafnaði leikinn í 2-2. Hann fékk þá pökkinn einn fyrir framan markið eftir þunga sókn og átti ekki í vandræðum með að koma honum í netið.

Snemma í þriðja leikhluta náðu gestirnir úr Grafarvoginum forystunni einu sinni þegar Róbert Pálsson skoraði með skoti fyrir utan. Heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu, héldu áfram að sækja og loks þegar innan við fjórar mínútur voru til leiksloka komu tvö mörk frá SA. Fyrst náði Arnar Helgi Kristjánsson að jafna leikinn í 3-3. Rúmum þremur mínútum síðar, þegar 63 sekúndur voru eftir af leiknum, skoraði Hafþór Andri Sigrúnarson og kom SA í fyrsta skipti yfir í leiknum, en það er auðvitað það sem gildir, að vera yfir þegar flautað er til leiksloka.

SA Víkingar hafa þar með unnið fyrstu þrjá leiki sína í A-hluta Toppdeildarinnar og eru í efsta sætinu með níu stig. SR hefur náð sér í sex stig, en Fjölnir er án stiga að loknum fjórum leikjum.

Björn Már Jakobsson stýrði liðinu í kvöld eins og í undanförnum leikjum, en hann og Ingvar Þór Jónsson stýra liðinu núna tímabundið á meðan leitað er þjálfara til að fylla skarð Sheldons Reasbeck. Ingvar Þór er spilandi þjálfari, en Björn Már stýrir af bekknum. Segja má að þeir hafi átt fullkomna byrjun sem aðalþjálfarar SA Víkinga, þrír leikir, þrír sigrar.

  • SA - Fjölnir 4-3 (1-1, 1-1, 2-1)

SA
Mörk/stoðsendingar: Hafþór Andri Sigrúnarson 2/0, Róbert Hafberg 1/0, Robbe Delport 0/2, Arnar Kristjánsson 0/1, Bjarmi Kristjánsson 0/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 17 (85%).
Refsimínútur:

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Birkir Einisson 1/1, Kristján Jóhannesson 1/1, Róbert Pálsson 1/0, Hektor Hrólfssson 0/3, Freyr Waage 0/1
Varin skot: Tuomad Heikkonen 42 (91,3%).
Refsimínútur: 12.

Leikskýrslan - atvikalýsing.

Staðan í deildinni.

Að venju var leiknum streymt á YouTube-síðu Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum í spilaranum hér að neðan.