Fara í efni
Menning

Sandra gerði fjögur og Þór/KA burstaði FH

Þrenna! Sandra María fagnar þriðja marki sínu í leiknum í Hafnarfirði í dag. Hún lét ekki þar við sitja heldur bætti fjórða markinu við. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen gerði öll fjögur mörkin þegar Þór/KA vann stórsigur, 4:0, á FH í dag á útivelli í 2. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Þessi snjalla landsliðskona hefur þar með gert fimm mörk í fyrstu tveimur leikjunum en stigin sem Þór/KA fékk fyrir sigurinn í dag eru þau fyrstu í sumar, liðið tapaði fyrir Íslandsmeisturum Vals á útivelli í fyrstu umferð.

Grasvöllur FH í Kaplakrika er ekki tilbúinn svo leikið var á gervigrasvelli Hauka á Ásvöllum – Blásvöllum, eins og Hafnfirðingar töluðu um í gamni, og nafnið átti a.m.k. vel við í gær. Strekkingsvindur var meðan á leiknum stóð.

Þór/KA lék á móti vindinum í fyrri hálfleik og var mun betra liðið. Sandra gerði fyrsta markið þegar aðeins sjö mínútur voru liðnar eftir góðan undirbúning Kimberley Dóru Hjálm­ars­dótt­ur.

Hulda Ósk Jónsdóttir með boltann í leiknum í dag. FH-ingurinn (31) er Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir og Margrét Árnadóttir til vinstri.

Sandra María var aftur á ferðinni þegar tæpur hálftími var liðinn. Fékk þá mjög góða sendingu á milli varnarmanna frá Lara Ivanusa, og þótt tveir varnarmenn væru nálægir skoraði Sandra með lúmsku skoti utan vítateigs. Skotið var ekki sérlega fast en mjög hnitmiðað, boltinn fór neðst í markhornið fjær.

FH-ingar hófu seinni hálfleikinn af meiri krafti en gestirnir, áttu skot í stöng snemma, en Stelpurnar okkar í Þór/KA voru hvergi bangnar, héldu boltanum prýðilega langtímum saman og tryggðu sér öruggan sigur af fagmennsku.

Sandra María gerði þriðja markið fimm mínútum fyrir leikslok. Eftir fallega sókn sendi Hulda Ósk Jónsdóttir boltann af snilld inn á miðjan markteig þar sem Sandra stakk sér á milli varnarmanna og skallaði boltann í netið. Skömmu síðar kórónaði framherjinn baneitraði gott dagsverk með fjórða markinu; varnarmaður hugðist senda boltann til baka á markvörðinn utan af kanti en sendingin var laus, Sandra sá hvað verða vildi og tók á sprett. Hún náði boltanum vel fyrir utan vítateig, fór framhjá markverðinum sem kom út á móti og skoraði auðveldlega. Hljóp með boltann inn á teig og spyrnti honum í tómt markið áður en aðvífandi varnarmenn fengu nokkuð að gert.

Fjórða markinu fagnað. Frá vinstri, Agnes Birta Stefánsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir og Bryndís Eiríksdóttir.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna