Fara í efni
Menning

Samfélagið nýtur góðs af ergelsi listamanns

Status - frekir kallar, nefnist sýning sem Sigurður Mar opnar í Kaktus í Listagilinu í dag, föstudag. Þetta er fyrsta málverkasýning Sigurðar en hann hefur áður haldið nokkrar ljósmyndasýningar. Á sýningunni eru 10 verk sem unnin eru á síðasta ári. Sýningin verður aðeins opin frá 17 til19 í dag 14 til 17 á morgun, laugardag.

„Fyrir nokkrum árum ákvað Sigurður að hætta að skrifa statusa á Facebook til að fá útrás fyrir gremju sína yfir því sem var að gerast í samfélaginu. Þannig losnaði hann við komment sem vöktu þá enn meiri gremju og streitu. Fyrir einu ári eða svo þurfti hann að finna aðra útrás fyrir pirring og gremju og fór þá að mála stórar portrettmyndir í stað þess að ranta á samfélagsmiðlum,“ segir í tilkynningu.

„Málverkin eru allskonar, sum fljótfærnisleg, önnur agressíf en einnig fínlega máluð, alveg eins og statusar á samfélagsmiðlum verða gjarnan. Á sýningunni eru tíu statusar ef svo má segja, tíu málverk sem öll veittu Sigurði útrás. Verkin eru öll til sölu. Væntanlegir kaupendur ákveða verðið en skuldbinda sig til að leggja upphæðina inn hjá góðgerðarsamtökum að eigin vali. Þannig nýtur samfélagið góðs af ergelsi listamannsins.“