Sagan af dátanum lifnar við í Hofi

Fjölskylduævintýrið Sagan af dátanum lifnar við í Hofi á morgun, sunnudag, þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, í samstarfi við Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar, býður upp þetta klassíska verk eftir tónskáldið Igor Stravinsky og rithöfundinn Charles Ferdinand Ramuz. Jenný Lára Arnórsdóttir leikstýrir, en hún segir að búast megi við fallegri frásögn í bundnu máli, klassískri tónlist og ævintýralegri umgjörð.
Það eru þrír leikarar í sýningunni en það eru Margrét Sverrisdóttir, sem leikur Sögumanninn, Katrín Birta Birkisdóttir, sem fer með hlutverk Dátans Jósef, og Eyþór Páll Ólafsson, sem fer með hlutverk Kölska.
Á sviðinu er gamaldags farandleikhúsvagn þaðan sem leikhústöfrarnir streyma
„Verkið var frumflutt í Sviss 1918, en tónlistin er samin af Igor Stravinsky og Charles Ferdinand Ramuz, sem semur textann upp úr rússneskum þjóðsagnabálki,“ segir Jenný Lára. „Þeir sömdu þetta fyrir börn en tónlistin þó mjög krefjandi en afskaplega fögur. Við höfum hugsað þetta sem fjölskyldusýningu sem hentar þó mögulega frekar eldri börnum. En þetta er þó þannig verk að það mætir líka fullorðið fólk án barna til að njóta hennar.“
„Á sviðinu er gamaldags farandleikhúsvagn þaðan sem leikhústöfrarnir streyma og erum við með það markmið að leikhúsgaldrarnir færi sögunni líf en séu í góðu jafnvægi við tónlistina,“ segir Jenný Lára. „Stundum er talað á sama tíma og tónlistin er spiluð, stundum eru leikararnir að fara með texta án tónlistar og stundum fær tónlistin að hljóma alveg ótrufluð. Textinn er skrifaður nákvæmlega inn í nóturnar, líkt og í óperum. Nema þetta er ekki ópera og það er ekki alltaf hljóðfæraleikur í gangi.“
Ungir og efnilegir leikarar taka sín fyrstu skref
„Það eru tveir nemendur úr Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar sem taka þátt og eru það Eyþór og Katrín sem voru nefnd hérna fyrr. Þau eru búin að vera nemendur hjá okkur síðan þau voru sjö-átta ára og eru núna í Unglingadeild. Þetta eru fyrstu skrefin í að gefa nemendum færi á að taka þátt í uppsetningum á vegum Menningarfélags Akureyrar og mynda meira samstarf skólans við svið félagsins. Þau eru að standa sig frábærlega og verður gaman að þróa svipuð verkefni í framtíðinni,“ segir Jenný Lára að lokum.
Sagan af dátanum verður sýnd á sunnudag í Hömrum í Hofi kl. 16:00. Hér má nálgast miða á sýninguna.