Fara í efni
Menning

Rútuferð á leik Þórs og Fjölnis á morgun

Gríðarlegur fjöldi mætti á leikinn í Höllinni á Akureyri á mánudagskvöldið og skapaði eftirminnilega stemningu. Þórsarar fjölmenna vonandi aftur á leikinn í Reykjavík á morgun. Mynd: Skapti Hallgrímsso

Á morgun ræðst hvort Þórsarar eða Fjölnismenn vinna sér sæti í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni. Þá fer fram fimmti og síðasti leikurinn í úrslitaeinvígi liðanna, í Fjölnishöllinni í Reykjavík. Höllin sú er hluti Egilshallar í Grafarvogi.

Liðin hafa sigrað í tveimur leikjum hvort, Þórsarar unnu í Fjölnishöllinni á föstudaginn var en Reykvíkingarnir hefndu fyrir það og unnu fyrir troðfullri Höll á Akureyri á mánudaginn.

Þórsarar fjölmenntu á sigurleikinn í Fjölnishöllinni, sköpuðu magnaða stemningu og fögnuðu fræknum sigri. Stefnt er að því að endurtaka þann leik og tilkynnt er á heimasíðu Þórs að rútuferð verði frá Akureyri á leikinn. 

Brottför verður frá Hamri kl. 12.00 og kostar miði í rútuna 2.000 krónur. Farmiðasala er í smáforritinu Stubbi. Leikurinn hefst kl. 18.30 og haldið verður heim á ný fljótlega eftir leik.