Rokksveitin Sólför gefur út sitt fyrsta lag
Akureyrska hljómsveitin Sólför gaf út sitt fyrsta lag í dag, rokksmellinn Clockwork Carousel, sem finna má á öllum helstu streymisveitum. Sveitin stefnir á að gefa út nýtt lag á sex vikna fresti næstu mánuði og síðan breiðskífu í sumar.
Sveitina skipa þeir Ivan Mendez söngvari, Sigfús Jónsson bassaleikari, Bjarni Einarsson gítarleikari og trymbillinn Kęstutis Balčiūnas. Meðlimir sveitarinnar lýsa tónlist sinni sjálfir sem „baksýnisspegils-rokki“ – tónlist sem sækir innblástur til klassísku aldar rokksins en er drifin áfram með nútímalegri framsetningu. „Þetta er tónlist sem mig hefur lengi langað til að gera, bara síðan ég var 13 ára rokkari að spila á gítar inni í herberginu mínu. Síðastliðin ár hef ég verið að kanna aðrar tónlistarstefnur, ég hef gaman af mjög mörgu, en þyngarafl rokksins fór að toga mig til sín aftur. Svo þegar ég fann minn bandamann í Fúsa þá fóru hjólin að snúast,“ segir Ivan um upphaf hljómsveitarinnar.
Tónlistin algjörlega heimatilbúin
Sigfús segir að þeir séu búnir að vera að pródúsera þessa tónlist saman í rúmt ár. „Mestmegnis er hún hljóðrituð í hljóðveri okkar, Hljómbræður Stúdíó, en svo höfum við fengið að taka upp trommur með Kęstutis í hljóðveri Tónlistarskólans í Hofi. Þannig það má segja að músíkin sé algjörlega heimatilbúin,“ segir Sigfús um framleiðsluferli tónlistarinnar.
Um texta þessa fyrsta útgefna lags sveitarinnar segir Ivan að myndmálið sé mjög litað af upplifun af stórborgarlífi. „Þetta fjallar um þessa vélrænu rútínu – hringekju hversdagsleikans – sem getur oft verið dimm og drungaleg þegar maður er ekki sáttur við ytri aðstæður. En þetta er líka áminning um að líðandi stund er það eina sem við eigum í raun, og að dimmir tímar taka alltaf enda,“ segir Ivan.