Fara í efni
Menning

„Rokkplata með dassi af rokkabillí og pönki“

„Rokkplata með dassi af rokkabillí og pönki“

Kristján Pétur Sigurðsson nýtir 72. aldursárið í að gefa út nýja plötu sem hann kallar KP & Jarkarnir. Þetta er fjögurra laga EP plata sem er orðin aðgengileg á Spotify: Spotify – KP & Jarkarnir, kom út 1. júlí sl. Kristján Pétur semur sjálfur öll lög og texta á plötunni.

„Ég lít á þetta sem stystu Best Of plötu allra tíma. Eða þá að þetta er einfaldlega í takt við tíðarandann, þegar allir gefa út eitt lag á Spotify eða 7 laga plötur, þarna er þá kominn rétt rúmlega hálf plata. Alltént er þetta þekkilegra en að eyða tímanum í golf eða hannyrðir á eftirlaunaaldrinum. Rokk er alltaf betra en fúltæm djobb, líka á árunum eftir að djobbinu slúttar,“ segir Kristján Pétur.

Áratuga ferill

Kristján á að baki áratugi í tónlistinni með fjölda hljómsveita, einkum norðan heiða. Þar á meðal eru: Kamarorghestar, Parror, LOST, Hún andar og Norðanpiltar. Að auki tók hann þátt í menningarstarfi Populus Tremula í Listagilinu á árunum 2004-2014.

Á plötunni nýju er að finna fjögur lög: Hleyptu mér inn, Bjúkkinn, Rokk er betra og BakfallaHrólfur. Tvö laganna hafa áður komið út með hljómsveitunum LOST (Hleyptu mér inn) og Kamarorghestum (Rokker betra), en eru nú gefin út í nýjum búningi með KP & Jörkunum. Hin lögin tvö hafa ekki verið gefin út áður.

Kristján Pétur Sigurðsson: Ég lít á þetta sem stystu Best Of plötu allra tíma. Ljósmynd: Daníel Starrason

„Platan er í stuttu máli sagt rokkplata með dassi af rokkabillí og pönki. Lögin sem áður hafði verið leyft að njóta sín með LOST og Kamarorghestum fengu nýjan búning þannig að platan myndaði sterkari heild. En ef lögunum hefði verið stillt upp í tímaröð á plötunni, væri röðin þessi: Bjúkkinn, Rokk er betra, Hleyptu mér inn og BakfallaHrólfur. Eftir diskussjón í bandinu var ákveðið að stilla þessu upp svona.“

Alnorðlensk gæðaafurð

Platan er alnorðlensk gæðaafurð, en upptökur annaðist Haukur Pálmason og Axel „Flex“ Árnason mixaði og masteraði gripinn. Kristjáni til halds og trausts á plötunni voru svo Jarkarnir. Þótt hljómsveitarnafnið sé lítt þekkt hljómsveitarnafn er það þó skipað valinkunnum hljóðfæraleikurum að norðan.

„Þeir Flex og Haukur stóðu sig helvíti vel í að láta þetta sánda og það er sterkur heildarsvipur á plötunni sem ég er mjög sáttur með. Varðandi Jarkana þá er þetta í senn hulduhljómsveit og nokkurs konar súpergrúppa með tónlistarmönnum úr ólíkum hljómsveitum að norðan. En enn sem komið er hafa þeir ekki verið auðkenndir og skuggaverurnar sem umkringja mig á kóferinu eru duldir hljómsveitarmeðlimir. Hverjir Jarkarnir nákvæmlega eru kemur í ljós, og þá endanlega á tónleikum sem er stefnt á að halda með haustinu. Jafnvel á EyrarRokki, hver veit.“

Kemur ef til vill á vínil

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um útgáfu vegna plötunnar, enn sem komið er hún einungis aðgengileg á streymisveitunni Spotify. Það gæti þó breyst. Til skoðunar er að gefa efnið út á vínil með haustinu.

„Það er auðvitað freistandi að taka málið alla leið og þrykkja þessari plötu á plast. En þá vakna auðvitað spurningar. Á að láta staðar numið við 7 tommu plötu? Eða stækka málið ögn, bæta við lögum og gefa út 7 laga 10 tommu? Og hvurt er baklandið í þessu öllu saman, er ekki heill her manns þarna úti sem væri til í að leggja málefninu lið, til dæmis með söfnun í gegnum sjóðina hennar Karólínu?“