Fara í efni
Menning

Rögnvaldur hættir í Hvanndalsbræðrum

Valmar Väljaots og Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson þegar Hvanndalsbræður stóðu fyrir Fjörleikahús í Hofi 30. september síðastlinn. Ljósmynd: Daníel Starrason

Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, einn stofnenda Hvanndalsbræðra, hefur ákveðið að hætta í hljómsveitinni. Hann segir það gert í mesta bróðerni við félaga sína og hljómsveitin hyggst starfa áfram.

„Hljómsveitin er að minnsta kosti ekki hætt, en ársfundur Hvanndalsbræðra sf. mun þó ekki fara fram fyrr en síðar í janúar mánuði og þá verður tekin frekari ákvörðun um framhaldið með tilliti til lagaútgáfu og tónleikhalds,“ segir Sumarliði Helgason við Akureyri.net en þeir Rögnvaldur stofnuðu hljómsveitina ásamt Val Frey Halldórssyni árið 2002.

Rögnvaldur segir ástæðu þess að hann hætti einfalda: þegar hljómsveitarbrölt gefi mönnum ekki það sem það gerði áður, og ef menn séu ekki í verkefnum af heilum, sé ráðlegast að stoppa , „stokka upp spilin og sjá hvort andinn kemur aftur yfir mann,“ eins og hann skrifaði á Facebook á dögunum.

Langt er síðan Hvanndalsbræðrum fjölgaði mjög þannig að nóg er eftir af mannskap! Sumarliði segir að hljómsveitin sé töluvert bókuð á þessu ári. „Hún komið fram í hinum ýmsu myndum allt eftir því hvort er um tónleika eða dansleiki er að ræða.“

Upprunalega útgáfa Hvanndalsbræðra; Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, Valur Freyr Halldórsson og Sumarliði Helgason. Hér er hljómsveitin á tónleikum á Græna hattinum árið 2010. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Hvanndalsbræður ásamt Hauki Tryggvasyni vert á Græna hattinum, þar sem hljómsveitin hefur marg oft komið fram. Mynd: Skapti Hallgrímsson