Fara í efni
Menning

Rakel hefur Litlu tónleikaröð Hælisins

Rakel spilar á Hælinu um helgina. Mynd: aðsend

Litla tónleikaröð Hælisins, seturs um sögu berklanna á Kristnesi, hefst á morgun, sunnudaginn 20. júlí kl. 15. Þá verða fyrstu tónleikarnir af þrennum, þegar Rakel spilar fyrir gesti. Næst verður Svavar Knútur með tónleika, laugardaginn 26. júlí kl 15, og Eik Haraldsdóttir og Guðjón Steinn Skúlason setja svo punktinn með síðustu tónleikunum, laugardaginn 9. ágúst kl. 13.30.

Það er enginn aðgangseyrir á tónleikana sem eru í boði Hollvina Hælisins*.

Ung og upprennandi tónlistarkona frá Akureyri

Rakel Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Akureyri. Hún hóf fiðlunám sex ára gömul við Tónlistarskólann á Akureyri og jazz söngnám síðar meir. Árið 2015 flutti hún til Reykjavíkur og hélt áfram tónlistarnámi við tónlistarskóla FÍH og útskrifaðist þaðan vorið 2020.
Árið 2021 gaf Rakel frá sér sína fyrstu stuttskífu, Nothing Ever Changes og ári seinna gaf hún, ásamt tónlistarkonunum Salóme Katrínu og Söru Flindt (DK), út splittskífuna While We Wait, en platan hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunana sem plata ársins.

Ásamt því að skapa og flytja sína eigin tónlist kemur Rakel fram með ýmsu tónlistarfólki en þar má nefna Nönnu (Of Monsters And Men), Kaktus Einarsson og Axel Flóvent. Um þessar mundir er Rakel að leggja lokahönd á sína fyrstu plötu í fullri lengd.

 

Svavar Knútur heldur tónleika laugardaginn 26. júlí kl 15. Eik og Guðjón mæta laugardaginn 9. ágúst kl. 13.30. Myndir: aðsendar

Öflugt tónlistarfólk úr heimabyggð

Svavar Knút þarf vart að kynna, söngvaskáldið frá Vestfjörðum hefur yljað okkur um hjartarætur í alllangan tíma. Hann býr nú á Akureyri en er á miklu flakki um heiminn að flytja tónlistina sína. Hann var að gefa út nýja plötu á dögunum Ahoy! og vonandi flytur hann okkur lög af henni. 

Eik Haraldsdóttir er söngkona frá Akureyri. Hún byrjaði ung í tónlist og hefur verið að flytja tónlist síðan 2013. Hún tók rytmískt framhaldspróf árið 2021 í tónlistarskólanum á Akureyri en hún kynntist djasstónlist almennilega þegar hún hóf nám við Listaháskóla Íslands.

Guðjón Steinn Skúlason er fjölhæfur tónlistarmaður og hljóðfæraleikari úr Reykjavík. Hann er menntaður í djass-saxófónleik, bæði úr Menntaskóla í Tónlist og Manhattan School of Music, en auk þess hefur hann reglulega komið fram í hlutverki klarinettu-, þverflautu-, píanó- og bassaleikara.

 


* Allir geta gerst Hollvinir Hælisins með því að senda póst á info@haelid.is. Árgjaldið er 2500 kr og ásamt tónleikaröðinni styrkja Hollvinirnir heimsóknir 6. bekkinga á Hælið á vorin.