Píanóverk Sveinbjörns komin á bók og diska
Heildarútgáfa píanóverka Sveinbjörns Sveinbjörnssonar er nú komin út í fyrsta sinn á nótnabókum og tveimur geisladiskum. Útgefandi er Polarfonia Classics ehf.
Þórarinn Stefánsson píanóleikari hefur veg og vanda að útgáfunni, ritstýrir bókunum og leikur jafnframt verkin á geisladiskunum. Þar er einnig að finna söguleg hljóðrit úr safni danska ríkisútvarpsins, Danmarks Radio, frá 1926 þar sem Sveinbjörn leikur sjálfur fáein verka sinna.
Lang flest verkanna eru hér gefin út í fyrsta sinn bæði á prenti og í hljóðriti. Áður höfðu aðeins komið út fáein píanóverka Sveinbjörns, flest útgefin í London eða Edinborg og nú löngu ófáanleg. Aðeins tvö verka hans, Idyll og Vikivaki, eru þekkt og flutt reglulega.
Vert er að nefna að Sveinbjörn er höfundur Lofsöngs, þjóðsöngs Íslendinga, en ljóðið er eftir Matthías Jochumsson.
Árið 1954 færði ekkja tónskáldsins Sveinbjörns Sveinbjörnssonar íslensku þjóðinni handrit hans að gjöf. Það var jafnframt ósk ekkjunnar að þau yrðu gerð aðgengileg með einhverju móti. Handritin hafa síðan þá verið varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands.

Hluti höfundarverks tónskáldsins er Lofsöngur, þjóðsöngur Íslendinga, sem fyrr segir. Það virðist ekki á allra vitorði lengur og Þórarinn sagði við akureyri.net fyrir sléttu ári að honum hafi runnið blóðið til skyldunnar sem kennara að koma verkum Sveinbjörns á framfæri. „Í samtölum mínum við nemendur, meðal annars á menntaskólaaldri, og jafnvel foreldra þeirra kom í ljós að enginn vissi í raun hver hefði samið þjóðsönginn okkar og ég áttaði mig á því að mjög vantaði upp á þekkingu almennings á tónskáldinu. Þeir sem eru íþróttasinnaðir og horfa oft á landsleiki vita mjög margir að Matthías Jochumsson samdi textann en fáir hver samdi lagið. Þetta var líklega það sem aðallega fékk mig til að fara af stað,“ sagði Þórarinn, spurður hvað knúði hann til þess að ráðast í heildarútgáfu á píanóverkum Sveinbjörns.
- Umfjöllun akureyri.net í desember á síðasta ári: