Fara í efni
Menning

Patti Smith með tónleika í Hofi 2. júní

Myndina af Patti Smith tók Tom Dumont.
Patti Smith mætir til Akureyrar ásamt hljómsveit og heldur tónleika í Hofi þriðjudaginn 2. júní, en verður áður með tónleika í Reykjavík 31. maí. Miðasala á tónleikana hefst þriðjudaginn 2. desember. Það er Tónleikur sem stendur fyrir komu hennar til Íslands.
 
Í tilkynningu frá tónleikahaldara segir um Patti Smith:
 
Patti Smith, fædd í Chicago og alin upp í New Jersey, flutti til New York árið 1967 og hefur síðan orðið ein áhrifamesta listakona sinnar kynslóðar, bæði sem tónlistarmaður, skáld og myndlistarkona. Hún sló í gegn með plötunni Horses árið 1975 og á að baki langan lista plata og bóka, þar á meðal Just Kids, sem hlaut bandarísku bókmenntaverðlaunin árið 2010. Hún hefur verið tilnefnd til Grammy- og Golden Globe-verðlauna og hlotið fjölmargar alþjóðlegar heiðursviðurkenningar, meðal annars Polar-verðlaunin og árið 2007 var hún tekin inn í frægðarhöll rokksins (Rock and Roll Hall of Fame).
 
Verk hennar, þar á meðal ljósmyndir og innsetningar, hafa verið sýnd víða um heim og hún hefur einnig hlotið heiðursdoktorsnafnbætur frá ýmsum háskólum. Smith er ötull talsmaður mannréttinda- og umhverfismála, einkum í gegnum samtökin Pathway to Paris, og býr nú í New York þar sem hún heldur áfram að skrifa, flytja tónlist og birta reglulega efni á Substack.