Fara í efni
Menning

Pabbinn finnur afann í Hofi í nóvember

Leikararnir Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson hafa unnið töluvert saman í gegnum tíðina en standa í fyrsta skipti saman á sviði í verkinu Pabbinn finnur afann. Það var frumsýnt í Hörpu í febrúar og verður sýnt í Hofi 11. nóvember.

Bjarni Haukur er höfundur verksins og leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson.

„Pabbinn finnur afann er glænýtt íslenskt verk sem er í senn mjög fyndið og hjartnæmt,“ segir í tilkynningu. „Verkið segir frá tveimur mönnum (pabba og afa) á leið í golf til Tenerife, en vegna seinkunar þurfa þeir að hanga í marga klukkutíma á Keflavíkurflugvelli. Gríðarleg flughræðsla afans og erfiðleikar í hjónabandi pabbans, ásamt áskorunum í barnauppeldi, endalausum tækninýjungum og óumflýjanlegum eftirlaunaaldri eru aðeins nokkur af þeim krefjandi málum sem þeir félagar þurfa að kljást við á vellinum.“

Pabbinn og Afinn nutu mikilla vinsælda á Íslandi og voru að auki sýndir í liðlega 20 öðrum löndum.

„Samstarf [Bjarna Hauks og Sigurðar] ættu flestir Íslendingar að þekkja því þúsundir hafa í gegnum tíðina séð uppsetningar þeirra og kvikmynd. Nú hins vegar standa þeir saman á sviði í fyrsta skiptið,“ segir í tilkynningu. Ennfremur að Pabbinn finnur afann sé að nokkru leyti vísun í leikverkin Pabbinn, sem frumsýnt var í Iðnó 2007 og sýnt rúmlega hundrað sinnum um land allt, og Afinn sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu 2011 og einnig sýnt rúmlega hundrað sinnum um landið þvert og endilangt. „Í báðum sýningunum sem voru einleikir, ásamt Hellisbúinn, How to become Icelandic og Maður sem heitir Ove sem og kvikmyndinni Afinn skiptu þeir félagar ávallt með sér verkum; á meðan annar lék, leikstýrði hinn.“