Fara í efni
Menning

Ótrúlegt en satt – Saga Akureyrar í fróðlegu ljósi

Svanatjörnin í Grænadal. Trjágarður er við hús Nikolínu. Norðan Þingvallastrætis er fáni á stöng við hús Jakobs Frímannssonar kaupfélagsstjóra. Ljósmynd: Jónatan Davíðsson.

Bókin Ótrúlegt en satt er nýkomin út hjá Völuspá en þar segir Jón Hjaltason sögu Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu eins og segir á bókarkápu.

Í tilkynningu frá útgáfunni er haft eftir Sigurði Jóhannessyni, bæjarstjórnarmanni til margra ára og aðalfulltrúa hjá KEA: „Skemmtilegur og fróðlegur lestur. Sá þarna líka margar og merkilegar myndir sem ég hef ekki séð áður.“

Þetta er ekki orðum aukið. Ótalmargar ljósmyndir varpa skýru ljósi á sögu bæjarins sem höfundur fylgir eftir með fjölmörgum forvitnilegum köflum um eitt og annað sem ekki er í hámælum haft. Hver kannast til dæmis við Ungherjakofann og kaldhæðnisleg örlög hans? Eða Nikolínuhnykkinn? Svo ekki sé nú minnst á forsendu hitaveitu Akureyringa sem varð til fyrir vanþekkingu – segir höfundur.

Svona má lengi telja en grípum frekar niður í bókinni.

Grænidalur og Svanatjörnin

Kristján Geirmundsson kunni að ala fugla og reyndar líka að stoppa þá upp. Hann var taxidermist, uppstoppari. Kristján vildi koma upp fuglatjörn á Akureyri og lofaði að útvega lifandi fugla á tjörnina. Í kjölfarið varð andapollurinn til eða Svanatjörnin eins og sumir vildu nefna tjörnina sem myndaðist haustið 1944 þegar lækurinn var stíflaður fyrir neðan sundlaugina.

Heitið Svanatjörnin fékk þó aldrei náð fyrir augum yfirvalda en það gerði hins vegar Grænidalur um dalverpið á milli Þingvallastrætis að norðanverðu og Skólastígs að sunnanverðu. Í þeim dal var Svanatjörnin.

Jón Ingimarsson, dáinn en samt kjörinn formaður

Jón Kristján Hólm Ingimarsson var Akureyringur, fæddur þar í bæ hinn 6. febrúar 1913. Hann var í áratugi for- maður Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri, og vinsæll svo af bar. Hann tók hlutverk sitt sem forsvarsmaður iðnverkafólks af mikilli alvöru sem meðal annars birtist í því að iðulega áttu félagar hans í hinu mesta basli við að hækka laun við formann sinn. Jón Ingimarsson vildi ekki taka hærra kaup en gekk og gerðist hjá félagsmönnum.

Gísli Jónsson, menntaskólakennari, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og góður vinur Jóns, útskýrði af hverju: „Ekki af því að hann mismæti starf sitt eða þyrfti ekki á fé að halda, því að hann var alla tíð fátækur, heldur af hinu, að hann óttaðist að baráttuhvötin fyrir málstað umbjóðenda sinna slævðist, ef hann hefði hærri laun en þeir.“

Jón Ingimarsson andaðist 15. febrúar 1981. Rúmri viku fyrr höfðu stjórnarmenn og trúnaðarráð Iðju komið sér saman um lista yfir nýja stjórn til handa félaginu. Þar var nafn Jóns Ingimarssonar efst á blaði. Var nú úr vöndu að ráða en varaformaðurinn, Kristín Hjálmarsdóttir, kvað upp úr og sagði enga breytingu hægt að gera á listanum fyrir aðalfundinn sem þá stóð fyrir dyrum.

Þannig atvikaðist það að Jón Ingimarsson var á aðalfundi Iðju hinn 8. mars 1981 einróma og án mótframboðs kjörinn formaður félagsins. Jón hafði þá hvílt í gröf sinni í hálfan mánuð.

Hin mörgu nöfn Grófargils

Ekkert hinna mörgu gilja Akureyrar hefur kallast jafnmörgum nöfnum og Grófargil sem er þó tvímælalaust elsta heiti gilsins og hið eina rétta. Ég hef þó ekki fundið eldra dæmi um nafnið en frá 1885 en þá var deilt um landamerki Stóra-Eyrarlands og Kotár og þess krafist að jarðirnar skiptust um „Grófargilslækinn.“

Nokkru fyrr eða 1866 höfðu kaupmennirnir Gudmann og Höepfner tekið höndum saman um að byggja lifrarbræðsluhús á Torfunefi, – af timbri, segir í Norðanfara, og stóð upp af húsinu mikill reykháfur hlaðinn úr múrsteini. Sem nærri má geta stafaði miklum fnyk frá verksmiðjunni. Grófargil varð þá Grútargil og stundum Grúthúsagil.

Árið 1895 stakk Eggert Laxdal upp á því í bæjarstjórn Akureyrar að bæjarsjóður legði fjármagn í sundkennslu eða gengi beinlínis í það verk að koma upp sundpolli fyrir bæjarbúa. Hugmyndin fékk góðan hljómgrunn. Árið eftir var Grófargilslækur stíflaður efst í gilinu. Vatni var þó ekki hleypt á sundpollinn fyrr en árið eftir, 1897, en þá var talið að hlaðinn fyrirstöðuveggurinn væri orðinn nógu gróinn og samansiginn til að þjóna hlutverki sínu. Gleymt var þá Grútargil en til varð Laugaskarð sem sumum þótti reyndar nokkurt öfugmæli þar sem vatnið í pollinum var flesta daga skítkalt og gruggugt.

Á 20. öld urðu enn nafnabreytingar. Talað var um Kaupfélagsgil enda Kaupfélag Eyfirðinga svo að segja allsráðandi í gilinu. Torfunefsgil heyrðist líka, dregið af Torfunefi sem Grófargilslækurinn hafði dundað sér við að búa til og tekið til þess margar aldir. Stundum vildi nafn gilsins renna saman við götuheitið en 1928 var götunni sem átti að liggja um Grófargil gefið nafnið Kaupvangsstræti. Í þessa nafngift vildi þó hlaupa ruglandi og var stundum talað um Kaupangsgil.

Bæði nöfnin, með vaffi og án, eiga rót sína að rekja til bæjarnafnsins Kaupangurs í Kaupangssveit sem vísar til kaupstefna og er sambærilegt við Stafangur, Harðangur og eflaust fleiri -angur nöfn í Noregi.

Þegar fram liðu stundir áttu menn erfitt með að skilja merkingu nafnsins Kaupangurs. Komst þá á kreik saga um að hungursneyð hefði neytt eigandann til að selja jörðina fyrir slikk og þar af flotið jarðarheitið því að vísast hefur sá haft mikið angur af því að missa jörðina og það fyrir lítið fé, sagði almannarómur.

Enn liðu stundir. Það hrikti í stoðum Kaupfélags Eyfirðinga og 1991 keypti Akureyrarbær margar af byggingum félagsins í Grófargili og tveimur árum síðar var Listasafnið á Akureyri opnað í gamla Mjólkursamlaginu. Og nú á öndverðri 21. öld er Grófargil tíðast nefnt Listagil.

_ _ _

Um þessa mynd segir Jón Hjaltason í bókinni Ótrúlegt en satt:

Ég sé ekki betur en að þetta sé Matthías Einarsson lögreglumaður sem þarna virðir fyrir sér fyrstu stöðumælana á Akureyri. Mælarnir stungu upp kolli í október 1963, tuttugu talsins. Fimmtán mínúturnar kostuðu eina krónu en hálftíminn tvær en ef brestur varð á greiðslu eða ef klukkan rann út áður en bíllinn var hreyfður nam sektin 20 krónum.

Bílinn A-1611 ber í Hafnarstræti 97. Þar stofnaði Magnús H. Lyngdal skóverslun árið 1910 og bjó sjálfur með fjölskyldu sinni á miðhæðinni.

Sé myndin tekin fljótlega eftir að stöðumælarnir komu upp er Bókabúð Rikku enn á jarðhæð hússins en í febrúar árið eftir keyptu hjónin Huld Jóhannesdóttir og Vigfús Þ. Jónsson verslunina sem nefndist upp frá því Bókabúðin Huld. Nú er stórhýsið Krónan á þessari lóð.

Húsið næst sunnan við, Hafnarstræti 95, byggði Eggert Melstað sem lengi var slökkviliðsstjóri Akureyringa. Þarna stofnaði hin merka kona, Jóninna Sigurðardóttir, Hótel Goðafoss og starfrækti um árabil. Kaupfélag Eyfirðinga keypti húsið og lét rífa árið 1971. Tveimur árum síðar, nánar tiltekið í byrjun júní 1973, flutti lyfjaverslun KEA, Stjörnu-Apótek, inn í götuhæð hins nýbyggða stórhýsis við Hafnarstræti 95.

Mynd: Gísli Ólafsson, Minjasafnið á Akureyri

_ _ _

Strýta tekin af grunni. Mynd: Páll Jónsson 

Rauða húsið við Skipagötu á faralds fæti. Mynd: Minjasafnið á Akureyri

Vélahúsið dregið upp á lóðina við Byggðaveg 12. Mynd: Héraðsskjalasafnið á Akureyri.