Fara í efni
Menning

Opið hús í Freyvangi vegna 60 ára afmælis

Kardemommubærinn er á fjölunum í Freyvangi um þessar mundir.

Leikfélag Öngulstaðahrepps, forveri Freyvangsleikhússins, var stofnað fyrir 60 árum, þann 9. apríl 1962. Afmælinu verður fagnað með opnu húsi í Freyvangi á föstudagskvöldið, 8. apríl.

Viðburðurinn hefst kl. 20 og stendur fram eftir kvöldi. Rifjaðar verða upp minningar um hin fjölmörgu leikrit sem sett hafa verið á svið í Freyvangi og hægt að glugga í leikskrár og myndir; og skoða ýmsa muni tengda leikhúsinu. Í boði verður kaffi og kaka og barinn verður opinn fyrir þá sem það kjósa.

Ekki er nauðsynlegt að hafa tengingu við leikfélagið – Það eru allir velkomnir!

Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins, sagði í samtali við Akureyri.net að ekki væri hægt að fagna á sjálfan afmælisdaginn því þann dag eru tvær sýningar á Kardemommubænum og ein til á sunnudag. Föstudagskvöldið varð því fyrir valinu.

Akureyri.net óskar Leikfélagi Öngulstaðahrepps – síðar Freyvangsleikhúsinu til hamingju með 60 ára farsælan feril.

Kardemommubænum verður sýndur kl. 13.00 og 16.30 á laugardag og kl. 13.00 á sunnudag.