Fara í efni
Menning

Öll hljóðfærin úr við úr Jamestownstrandinu

Áhugaverðir tónleikar verða í Hofi á sunnudaginn, 7. mars, klukkan 15.00. Yfirskrift tónleikanna er Dauðinn, stúlkurnar og strandið, og þar leikur strengjakvartettinn Spúttnik ýmis verk.

Skemmtilegt er að nefna að hljóðfæri kvartettsins eru öll smíðuð af fiðlusmiðnum Jóni Marinó Jónssyni í Reykjavík, og í þau notaði hann við sem var um borð í skipinu Jamestown þegar það strandaði í Höfnum á Reykjanesi árið 1881. Skipið var á leið frá Boston til Bretlands með gríðarmikinn timburfram, sem nota átti undir járnbrautartáni þar í landi. Þess í stað var viðurinn notaður í fjöldamörg hús á Suðurnesjum á sínum tíma, og nú síðustu misseri hefur Jón Marinó smíðað úr honum hljóðfæri!

Á tónleikum verða meðal annars leiknir kaflar úr verkinu Dauðinn og stúlkan eftir Schubert og sálmurinn Hærra, minn Guð til þín sem talið er vera síðasta lagið sem strengjakvartett á Titanic lék áður en skipið sökk. Á milli atriða mun Jón Marinó segja frá hljóðfærunum, Jamestownstrandinu og fleiru.

Kvartettinn Spúttnik skipt Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir, Hrafnhildur Atladóttir, Vigdís Másdóttir og Gréta Rún Snorradóttir. Miðaverð er 3000 krónur en félagsmenn í Tónlistarfélagi Akureyrar og námsmenn fá 20% afslátt. Miðasala á mak.is og tix.is

Efnisskráin í heild er sem hér segir:

  • Franz Schubert, Strengjakvartett í d-moll – 1. kafli, Allegro
  • Lowell Mason – Hærra, minn Guð til þín
  • Jón Leifs – Requiem
  • Franz Schubert – Strengjakvartett í d-moll, 2. kafli, Andate con moto
  • Íslenskt þjóðlag – Sofðu unga ástin mín

Strengjakvartettinn Spúttnik: Sigríður Bjarney Baldvinsdóttir, Hrafnhildur Atladóttir, Vigdís Másdóttir og Gréta Rún Snorradóttir.