Fara í efni
Menning

Olga Vocal Ensemble í Akureyrarkirkju

Olga Vocal Ensemble í Akureyrarkirkju

Síðustu Sumartónleikar í Akureyri að þessu sinni eru sunnudaginn 25. júlí kl. 17:00. Þá mun Olga Vocal Ensemble flytja dagskrá sína Aurora, um norðurljósin sem mála myndir á himnum á dimmasta tíma ársins. Eftir því vill Olga líkja með röddum sínum. Sungin verða uppáhaldslög meðlima Olgu, lög sem vekja drengjunum innblástur og lög sem vekja upp góðar minningar, lög sem meðlimir hópsins elska að syngja og hlusta á. Á erfiðum tímum pestarinnar langaði hópinn til að skapa eitthvað persónulegt, eitthvað sem gæti tengt fólk saman þrátt fyrir þá einangrun sem margir hafa þurft að umbera á árunum 2020 og 2021. „Ljós í myrkrinu, fallegur samhljómur, því dimmari sem heimurinn verður, þeim mun skýrar sjást norðurljósin“, segir í kynningu á tónleikunum.

Lagalisti tónleikanna er fjölbreyttur og má heyra allt frá klassískum verkum og djassi yfir í yfirtónasöng úr smiðju meðlima Olgu. Einmitt þar má líkja hljómnum sem heyra má við norðurljósin að mála fagrar myndir á himnum.

Olga Vocal Ensemble er skipaður 5 strákum, 3 eru búsettir í Hollandi og 2 eru búsettir á Íslandi. í Olgu eru Hollendingarnir Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingurinn Matthew Lawrence Smith, rússneski Bandaríkjamaðurinn Philip Barkhudarov og Íslendingurinn Pétur Oddbergur Heimisson. Hópurinn hefur starfað saman síðan 2012 með höfuðstöðvar í Utrecht í Hollandi, en hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan þá, að undanskildu árinu 2020.

Olga Vocal Ensamble hefur stutta tónleikaröð sína á Íslandi í Akureyrarkirkju 25. júlí en kemur í framhaldi af því fram á Seyðisfirði, Blönduósi, á Berjadögum í Ólafsfirði, í Flatey, á Ísafirði og loks í Reykjavík.

Olga hefur gefið út 3 geisladiska, fyrsti diskurinn kom út árið 2012, Vikings kom út 2016 og It’s a Woman’s World 2018. Sumarið 2021 kemur síðan út 4. diskur hópsins, Aurora, en hann verður einnig fáanlegur á vínylplötu. Hér má heyra Olgu syngja Vikivaka, lag Valgeirs Guðjónssonar við ljóð Jóhannesar úr Kötlum 

Sumartónleikar í Akureyrarkirkju eru styrktir af Menningarsjóði Akureyrar, Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Tónlistarsjóði, Héraðssjóði og Listasumri. Að vanda er aðgangur ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.