Fara í efni
Menning

Nýjar bækur kynntar á Backpackers

Akureyrsku rithöfundarnir Hrund Hlöðversdóttir og Jón Hjaltason kynna bækur sínar á Backpackers í kvöld og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir spilar jólalög á milli kynninga.

„Hrund kynnir nýútkomna skáldsögu sína, ÓGN – ráðgátan um Dísar-Svan, sem á rætur sínar í kynngimögnuðu landslagi Öxnadals og sýnir okkur inn í tvo heima, raunheiminn, sem við þekkjum öll, og svo þann dulda, þar sem margt skrýtið og óhugnanlegt er á sveimi,“ segir í tilkynningu.

„Jón kynnir bækur sínar um Akureyri: Ótrúlegt en satt, Þessir Akureyringar...?, Markús og kannski ber sjálfan Káinn einnig á góma.

Þetta verður sannkölluð gleðistund og „happy hour“ á jólabjór meðan á bókakynningunni stendur.“

Í tilkynningunni eru bæjarbúar hvattir til að mæta, „en þeir sem ekki eiga þess kost geta þá í það minnsta hlustað á kynningu Hrundar á bók sinni í þættinum Bókaþjóðin á N4 sem verður þetta sama kvöld. Því er svo við að bæta að hún mun kynna og árita bókina í Pennanum-Eymundsson Í Hafnarstræti laugardaginn 18. desember milli 14 og 16. Bókin verður á tilboðsverði í versluninni af þessu tilefni, en hún er tilvalin í jólapakka barna og unglinga og auðvitað allra sem elska dulrænar frásagnir.“

Samkoman á Backpackers í kvöld hefst klukkan 20.00.