Fara í efni
Menning

Nýárstónleikar SN: 12 verk og fimm „kanónur“

Daníel Þorsteinsson og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á æfingu í Hofi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgr…
Daníel Þorsteinsson og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á æfingu í Hofi í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands býður upp á fjölbreytta og skemmtilega efnisskrá á nýárstónleikum í Hamraborgarsalnum í Hofi á morgun,  laugardag, kl. 20. Á tónleikunum verður frumflutt verkið Fantasía-Ólafur Liljurós sem Michael Jón Clarke samdi sérstaklega af þessu tilefni.

Hluti tónleikanna verður í hefðbundnum nýárstónleikastíl þar sem meðal annars verða fluttir valsar, polkar, forleikir og aríur eftir þekkt tónskáld. Daníel Þorsteinsson stjórnar hljómsveitinni og segir hann í samtali við Akureyri.net að gestir megi eiga von á góðri og fjölbreyttri skemmtun.

„Það eru 12 verk á efnisskránni og það er einmitt það sem gerir þessa tónleika svo athyglisverða, mjög fjölbreytt verk þar sem við bjóðum annars vegar upp á sígilda Vínartónlist, Strauss og fleiri, með mikla tengingu við Austurríki og Ungverjaland. Síðan förum við til Austur-Evrópu með Dmitri Shostakovich og Sergei Prokofiev,“ segir Daníel.

Fimm kanónur sjá um sönginn

Rúsínan í pylsuendanum er svo frumflutningur á nýju verki eftir Michael Jón Clarke, sem hann samdi sérstaklega af þessu tilefni. Verk Michaels heitir Fantasía-Ólafur Liljurós þar sem hann sækir í hið forna og vel þekkta danskvæði um Ólaf. Fantasían er fyrsta verk hans fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit.

„Við verðum með fimm kanónur með hljómsveitinni sem syngja einsöng í verkunum og koma svo öll saman í verki Michaels,“ segir Daníel og vekur athygli á að gestum verði boðið upp á að taka undir, en eingöngu þó í viðlaginu. Einsöngvararnir eru Þóra Einarsdóttir sópran, Andri Björn Róbertsson bass-baritón, Hanna Dóra Sturludóttir mezzó-sópran og Dagur Þorgrímsson tenór, en sérstakur gestur verður tenórinn Gísli Rúnar Víðisson.

„Mikilvægt að skapa okkar eigin hefð“

Michael Jón notar texta kvæðisins sem er níu erindi og spinnur tónlist sína, fantasíuna, út frá stefinu í íslenska þjóðlaginu. En er samhljómur með verki Michaels Jóns og öðrum verkum á efnisskránni?

„Já, þetta fellur saman eins og flís við rass, verk Michaels og Vínarvalsarnir,“ segir Daníel. „Michael fer aðeins inn á þetta svið, vitnar í Vínarhefðina og fer út um víðan völl í sínu verki, kemur með tilbrigði við upphaflega tónverkið og fer með það víða.“

Um tengingu Fantasíunnar við önnur verk og hefðir nýárstónleikanna segir Daníel að honum hafi ekki fundist að sá hluti ætti að fylla heila tónleika enda væri sú tónlist og dansarnir ekki okkar hefð. „Hugmyndin var að það væri augljós kjarni, Vínartónlistin og það sem henni fylgir, en jafnframt fannst mér mikilvægt að skapa okkar eigin hefð, bjóða upp á nýtt verk,“ segir Daníel.

Michael Jón kynnir verkin fyrir tónleikana

Efnisskrá tónleikanna má sjá hér, en þar er meðal annars að finna fróðleik um stjórnandann, einsöngvarana og tónskáldið. Tónleikarnir hefjast kl. 20 og verða í Hamraborg, stóra salnum í Hofi. Rétt er að vekja athygli á að Michael Jón Clarke verður með kynningu á efnisskrá tónleikanna á veitingastaðnum í Hofi klukkutíma fyrir tónleikana. Hann segir að það verði á léttu nótunum, skemmtilegur inngangur að skemmtilegu kvöldi og hann ætli að reyna að koma með fróðlegar hliðar og sögur um tónskáldin sem eiga verk á tónleikunum.

Miðasala á tónleikana sjálfa er á tix.is.