Fara í efni
Menning

Ný, alþjóðleg kvikmyndahátíð

Ný, alþjóðleg kvikmyndahátíð, Northern Lights - Fantastic Film Festival, verður haldin í fyrsta skipti síðar í mánuðinum á Akureyri. Um er að ræða þematengda kvikmyndahátíð sem haldin er nálægt hrekkjavöku og stefnt að því að festa hana í sessi í höfuðstað Norðurlands.

Fantastic er notað yfir ákveðna tegund kvikmynda; til þessa flokks teljast myndir unnar í töfraraunsæi og allt sem er á mörkum þess raunverulega; draugar, huldufólk, þjóðsögur og fantasíur af ýmsu tagi.

Hátíðin verður dagana 26. til 29. október og sýndar verða 38 alþjóðlegar stuttmyndir í Hofi og keppa til verðlauna.

Til gamans má geta að ein stuttmyndanna sem tekur þátt í hátíðinni – On/Off eftir argentínska leikstjórann Nicolás P. Villarreal – komst á blað hjá Heimsmetabók Guinnes í janúar á þessu ári fyrir að hafa unnið flest verðlauna allra stuttmynda. Hún var frumsýnd árið 2020 í Los Angeles, þar sem leikstjórinn er búsettur, og er sú fyrsta sem nær að vinna til 1.000 verðlauna. Þau eru nú orðin hvorki fleiri né færri en 1.125!



Stofnendur kvikmyndahátíðarinnar, frá vinstri: Marzibil S. Sæmundsdóttir, Brynja Baldursdóttir og Ársæll S. Níelsson.

Tveir bransaviðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar í Listasafni Akureyrar.

Pallborð - Afhverju er þjóðsagnararfurinn vannýttur í íslenskum kvikmyndaverkum og hvernig breytum við því?
Þátttakendur: Christopher Newman, Inga Lísa Middleton og fleiri.

Meistaraspjall - Tónlist og hljóðhönnun í fantastic kvikmyndaverkum.
Þátttakendur: Hilmar Örn Hilmarsson kvikmyndatónskáld, Kjartan Kjartansson hjóðhönnuður og fleiri.

Ýmsir fantastic viðburðir verða haldnir samhliða hátíðinni, eins og t.d. hrekkjavökubúningaball, tónleikar og spurningakeppni – pub quiz. 

Kvikmyndagerðarfólk sem kemur víðs vegar að úr heiminum mun einnig setja svip sinn á hátíðina, að því er segir í tilkynningu frá skipuleggjendum, „bæði til að fylgja myndum sínum eftir en einnig til að upplifa fantastic helgi á Akureyri.“

Aðstandendur hátíðarinnar eru þau Ársæll Sigurlaugar Níelsson, leikari og framleiðandi, Brynja Baldursdóttir, myndlistakona og hönnuður og Marzibil Sæmundardóttir, kvikmyndagerðarkona.