Fara í efni
Menning

Nútíma afturgöngur og Njála fyrir börnin

Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur sendir í dag frá sér bókina Smáralindar-móri, draugasögu fyrir unglinga, og krakka sem eru að verða unglingar, eins og hún segir. Þá er Njála Brynhildar að koma út á ný; endursögn hennar fyrir börn á því stórvirki, einum mesta dýrgrip íslenskrar menningarsögu. Sú bók hefur verið ófáanleg árum saman.

Af þessu tilefni blæs Brynhildur til útgáfuteitis kl. 14.00 í dag, laugardag, í Eymundsson í göngugötunni á Akureyri. Þar les höfundurinn úr Smáralindar-móra, allir eru velkomnir og hressing verður í boði.

„Í draugasögunni sæki ég í arfinn, eins og móra-nafnið bendir til. Ég er að leika mér með minnið um afturgöngu á ákveðnum aldri sem föst er á ákveðnum stað,“ segir Brynhildur við Akureyri.net. „Það er ungir draugar í þessari bók; nútíma draugar í nútíma sögu. Þeir eru háskalegir og hefnigjarnir eins og afturgöngur gjarnan eru. Þær eiga alltaf einhverju ólokið; ganga aftur vegna þess, en átta sig ekki alltaf sjálfar á ástandinu.“

Breiður lesendahópur

Margir hafa heyrt um móra og líklega allir um Smáralind! Bókin gerist í þeirri þekktu verslunarmiðstöð. „Sagan hefst árið áður en Smáralind er opnuð þar sem drengir eru að príla á byggingasvæðinu og á opnunardegi verða stúlkur í verslunarmiðstöðinni varar við eitthvað sem ég ætla ekki að fara nánar út í! Á hverjum afmælisdegi Smáralindar er svo alltaf ýmislegt á kreiki.“

Síðasta bók Brynhildar, Ungfrú fótbolti, var söguleg skáldsaga og átti augljóslega einkum erindi til afmarkaðs hóps en Brynhildur telur nýju bókina höfða til mun fleiri. „Lesendahópurinn er mjög breiður og getulega er mikill munur á krökkum á þessum aldri. Þetta er létt kilja, bókin er mikið myndskreytt og letrið aðgengilegt; þeir sem eru duglegir að lesa geta spænt hana í sig en þeir unglingar sem eru ekki endilega mikið fyrir doðranta fá hér líka eitthvað við sitt hæfi.“

Elías Rúni myndskreytir nýju bókina, Smáralindar-móra.

Njála sló í gegn

Njála, endursögn Brynhildar á þeim gullmola, kom upphaflega út 2002 og var fyrsta bók hennar, myndskreytt af Margréti Laxness. „Við renndum alveg blint í sjóinn. Menn voru ekki mikið í því að matreiða menningararfinn um aldamótin, hann hafði bara verið geymdur í efstu hillunni,“ segir Brynhildur en bætir við að viðbrögðin hafi verið lygileg. „Fyrsta upplag bókarinnar seldist upp, hún fór í endurprentun fyrir jólin, aftur 2005 og 2008 og seldist alltaf upp.“

Bókin var mikið keypt til gjafa hér heima auk þess sem margir sendu hana vinum erlendis, segir Brynhildur, en Þóroddur Bjarnason, eiginmaður hennar, þýddu bókina á ensku. Brynhildur nefnir að margir Íslendingar virðist feimnir við sitt ástkæra, ilhýra tungumál gagnvart erlendum ferðamönnum en „ég hef heyrt frá bókabúðum að túristar kaupi bækur á báðum tungumálum til að bera saman. Að nokkuð sé um að þeir vilji grípa með sér fjölskylduvænt menningarefni.“

Forvitin um „venjulega fólkið“

„Fjölmargir skólar notuðu bókina í kennslu og svo var markaður sem ég reiknaði ekki með; menntaskólanemendur sem eru að rifja Njálu upp fyrir próf! Hún kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir upphaflega verkið en getur verið góð til upprifjunar.“

Svo skemmtilega vill til að Njála Brynhildar kemur út á sama tíma og dúettinn Hundur í óskilum sýnir Njálu á hundavaði í Samkomuhúsinu. Fyrsta sýning hundanna var í gærkvöldi. „Já, það er algjör tilviljun en væri fínt fyrir fólk að grípa bókina og renna yfir hana áður en það fer í leikhúsið!“

Brynhildur segir að mikil spurn hafi verið eftir bókinni síðustu ár, bæði frá kennurum og öðrum, en ferlið hafi tekið langan tíma. „Það hefur verið mér til gæfu að prentskjaldið týndist, ég sló bókina því inn aftur og gat lagfært textann. Ég hef farið mikið í skóla og vissi hvar þyrfti að byggja skýrari brýr.“

Verkefnið vatt á sínum tíma upp á sig á og Brynhildur heldu úti vefnum islendingasogur.is þar sem er að finna ýmiskonar skýringar um sögurnar og samfélagið. „Ég hef lesið Íslendingasögur fyrir börn og þau spyrja mikið um venjulega fólkið. Þeim finnst hetjurnar vissulega spennandi en vilja líka vita um venjulega fólkið; hvernig það bjó, hvað það borðaði og svo framvegis. Velta fyrir sér hvað þau hefðu þau gert ef þau hefðu verið uppi á þessum tíma.“