Nína kynnir 'Þú sem ert á jörðu' hjá FFA
Ferðafélag Akureyrar heldur áfram með Opin hús í húsakynnum sínum að Strandgötu 23 á nýju ári, en á morgun, mánudag 12. janúar kl. 20.00 kemur Nína Ólafsdóttir rithöfundur í heimsókn og kynnir bók sína Þú sem ert á jörðu.
Nína er fædd í Reykjavík en búsett á Akureyri ásamt eiginmanni og syni, hér má lesa viðtal akureyri.net við Nínu. Hún er menntuð í líffræði og hefur stundað rannsóknir á sviði sjávarvistfræði, m.a. á Svalbarða. Hún hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar Íslenskra bókmennta árið 2022 fyrir handritið að bókinni Þú sem ert á jörðu sem er hennar fyrsta bók.
Sagan fjallar um konu sem elst upp á heimskautasvæði á sama tíma og miklar umhverfislegar og samfélagslegar breytingar eru að eiga sér stað. Hún berst við að draga fram lífið á heimaslóðum sínum, einsömul ásamt hundinum sínum og þar hefst ævintýralegt ferðalag þeirra félaga um ólík vistkerfi jarðar.
Þú sem ert á jörðu hefur fengið frábærar viðtökur og góða dóma í jólabókaflóðinu, og eru gagnrýnendur sammála um að enginn byrjendabragur sé á bókinni. Náttúrutengingin í bókinni er sterk, en hún er hugleiðing um umhverfisbreytingar, útdauða og framvindu lífs á jörðinni. Hér er maðurinn ekki Guð heldur tilheyrir hann náttúrunni, og er jafn háður kenjun hennar og aðrar lífverur á jörðinni.
FFA býður upp á kaffi og konfekt, og verður tækifæri til umræðna og spurninga til Nínu. Skráning er óþörf og öll velkomin.