Fara í efni
Menning

Næturstilling strákanna í Sjálfsprottinni spévísi

Akureyrska hljómsveitin, Sjálfsprottin spévísi, sendi á Þorláksmessu frá sér fjögurra laga plötu, sem ber nafnið Næturstilling. Strákarnir búa ekki í sama landinu og hafa ekki komið saman lengi en nú til dags kemur það ekki í veg fyrir neitt! Hver tók upp eigin spilamennsku og einn þeirra, gítarleikarinn Bjarki Guðmundsson, sem búsettur er í Boston, kláraði dæmið.

Tónlistin var tekin upp frá apríl og fram í desember. Í hljómsveitinni eru, Bjarki, sem áður var nefndur, Bjarni Þór Bragason, söngvari og gítarleikari, Emil Þorri Emilsson, trommari og bassaleikarinn Guðmundur Ingi Halldórsson.

„Sjálfsprottin spévísi var stofnuð árið 2007 á Akureyri – norðan Glerár,“ segir Bjarki við Akureyri.net. „Fyrsta platan kom loks út 2014 en fljótlega eftir það fór hljómsveitin í nokkurskonar fjarsamband. Emil var í Hollandi 2014 til 2018, Bjarni var í Japan 2016 og 2017, Guðmundur hefur flutt á milli Reykjavíkur og Hofsóss og ég hef verið í Bandaríkjunum síðan 2017,“ segir Bjarki. Illa hafi gengið að halda hópnum á sama stað, en „Akureyri er þó heimahöfn spévísarinnar.“

Næturstilling hefur verið lengi í smíðum, upprunalega hugmyndin var að fara í hljóðver þegar allir hefðu tíma, og taka upp heila plötu. „Við hefðum eflaust þurft að bíða í nokkur ár í viðbót eftir því tækifæri, en svo þegar Covid tók yfir lífið skiptum við um gír og ákváðum að prófa að gera þetta bara sjálfir,“ segir Bjarki.

Emil tók upp sína spilamennsku á Akureyri, Bjarni og Guðmundur í Reykjavík og Bjarki í Boston, þar sem hann setti svo allt saman og hljóðblandaði plötuna. „Ferlið tók lengri tíma en við hefðum vonast til en var gífurlega lærdómsríkt og erum við mjög stoltir af lokaútkomunni. Sóley Björk Einarsdóttir útsetti fyrir blásturshljóðfæri og lék á básúnu og trompet. Plötuumslagið er vatnslitaverk eftir stórvin okkar, Tómas Leó Halldórsson,“ segir hann.

Strákarnir sendu vitaskuld frá sér myndband í tilefni útgáfunnar. „Það þýðir víst lítið nú til dags að gefa út tónlist án einhverskonar sjónrænnar túlkunar á því sem á sér stað. Við getum ekki verið minni menn í þeim efnum og útbjuggum myndband þar sem áhorfendur fá að njóta tónlistarinnar með Bjarna okkar í Vaðlaheiði á köldum desemberdegi. Verkefnið er allt heimatilbúið; tónlist, myndband og plötuumslag – allt beint frá býli.“

Smellið HÉR til að sjá myndbandið og heyra tónlistina

Lögin má finna á öllum helstu streymisveitum, líkt og Spotify og Apple Music