Fara í efni
Menning

Myndlistaverðlaun ársins fyrir Vísitasíur

Mynd af sýningunni Vísistasíur í Listasafninu á Akureyri.

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson hlutu á dögunum Myndlistarverðlaun ársins 2022 fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri. Það er Myndlistarráð sem stendur að Íslensku myndlistarverðlaununum sem hafa þann tilgang að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi.

Í umsögn dómnefndar segir: „Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.“

Í umsögninni segir einnig:

„Ferill þeirra er fjölbreyttur og þau hafa nýtt rannsóknaraðferðir samtímalistar til að eiga í samtali við rannsóknir á öðrum sviðum, svo sem náttúruvísindum, þjóðfræði og umhverfisfræðum. Þau líta svo á að aðferðir samtímalistar geti fært mikilvæga viðbót í samtal milli ólíkra fræðigreina og beint sjónum í nýjar og óvæntar áttir.

Þau Bryndís og Mark nýta fjölbreyttar aðferðir við framsetningu verka sinna, þar sem samspil myndbandsverka, fundinna hluta, teikninga, ljósmynda og ýmissa gagna mótar innsetninguna í samhengi við hvern og einn sýningarstað. Innsetning þeirra í Listasafninu á Akureyri var í senn áhrifarík og fræðandi og myndaði áhugaverða heild í rými safnsins.

Auk Bryndísar og Marks voru eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Myndlistarverðlaunanna 2022:

  • Carl Boutard fyrir sýninguna Gróður jarðar í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni
  • Steingrímur Eyfjörð fyrir sýninguna Tegundagreining í Listasafni Reykjanesbæjar
  • Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Önnudóttir fyrir sýninguna Feigðarós í Kling og Bang